Hótel Tindastóll 130 ára

Hótel Tindastóll á Sauðárkróki er elsta starfandi hótel landsins en það er 130 ára um þessar mundir. Hótelið er enn í fullum rekstri og ætla núverandi eigendur, Tómas H.Árdal og Selma Hjörvarsdóttir að fagna afmælinu með því að bjóða Skagfrðingum, vinum og velunnurum upp á tvo einleiki á föstudagskvöldið; Gísla Súrsson og Fjalla-Eyvindi í flutningi Elvars Loga Hannessonar frá Kómedíuleikhúsinu.

Hefjast þeir á Mælifelli kl 20:00 föstudaginn 31. október og eru allir velkomnir og aðgangur ókeypis, meðan húsrúm leyfir.

Hótel Tindastóll var reist á Sauðárkróki 1884 til að sinna vaxandi þörf fyrir gistirými í kringum vesturferðir Íslendinga til Kanada á þessum árum. Húsið var þó upphaflega reist handan fjarðar, eða á Hofsósi, árið 1820, og kom á Sauðárkrók með viðkomu í Grafarósi. Nánar er fjallað um sögu hótelsins í heilsíðugrein í 41. tölublaði Feykis sem kom út í dag.

Fleiri fréttir