Hraðbanki á förum frá Hólum
Hraðbanki sem hefur þjónað íbúum Hólastaðar og nærsveitarmönnum frá árinu 2005 var tekinn niður í byrjun vikunnar og fluttur burt. Íbúar staðarins eru óánægðir með aðgerðina og hafa sent harðorð mótmælabréf til Arion banka og skora á stjórnendur hans að hætta við aðgerðina.
„Þetta er auðvitað mjög slæmt, ekki bara fyrir íbúa Hóla, heldur líka fyrir alla þá ferðamenn sem hingað koma. Í auglýsingabæklingum er tekið fram að hér sé hraðbanki þannig að fólk reiknar með því. Svo eru hér nemendur og fólkið í sveitinni í kring notar hann líka,“ segir Aldís Axelsdóttir starfsmaður Hólaskóla. Hún segir íbúa Hólastaðar sára og reiða yfir þeirri skertu þjónustu sem verið er að veita eftir þessa aðgerð. „Okkur finnst hart að sú þjónusta sem íbúar í dreifbýli njóti fari sífellt minnkandi. Það er kannski rétt að minna á að Hólar eru skilgreindir sem þéttbýlisstaður.“
Haraldur Guðni Eiðsson forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka segir hraðbankann kominn til ára sinna og ekki útlit fyrir að nýjum verði komið fyrir. Segir hann eftirspurn og nýtingu bankans afar takmarkaða. Einnig sé um að ræða elsta hraðbanka Arion banka sem orðinn var úreltur, rúmlega tuttugu ára gamall. Því hafi verið nauðsynlegt að taka hann úr rekstri. „Hraðbönkum fylgir umtalsverður kostnaður. Bæði er um að ræða fjárfestingu í hraðbankanum sjálfum og þeim hugbúnaði sem honum fylgir, en einnig er kostnaður við áfyllingu og viðhald. Sú litla eftirspurn eftir hraðbankaþjónustu sem er á Hólum er því miður nokkuð frá því að réttlæta fjárfestingu í nýjum hraðbanka,“ segir Haraldur.
Er samkeppni svo lítil í bankageiranum að þeir berjist ekki fyrir því að hafa hraðbanka í byggðakjörnum, þrátt fyrir að þeir séu litlir?
„Samkeppni í bankageiranum er veruleg. Hins vegar þarf að huga að ýmsum þáttum þegar horft er til staðsetningar hraðbanka. Eftir að hafa verið með hraðbanka á Hólum til fjölmargra ára er niðurstaðan nú að endurnýja ekki hraðbankann sem var orðinn úreltur og ráða þar kostnaðarsjónarmið mestu, sem og að næsta hraðbanka er að finna á Hófsósi.“