Hrafnhildur Pétursdóttir hlaut samfélagsverðlaun Molduxa

Hrafnhildur Pétursdóttir tekur við Samfélagsviðurkenningu Molduxa úr hendi Geirs Eyjólfssonar, foringja Molduxa.
Hrafnhildur Pétursdóttir tekur við Samfélagsviðurkenningu Molduxa úr hendi Geirs Eyjólfssonar, foringja Molduxa.

Við setningu 25. Jólamóts Molduxa í körfubolta í morgun var Hrafnhildi Pétursdóttur veitt samfélagsverðlaun Molduxa, sú fjórða í röðinni. Hefur hún unnið af miklum dugnaði að íþróttalífi í Skagafirði í fjölda ára.

Ungmennafélagið Molduxar veitir nú í fjórða sinn Samfélagsviðurkenningu Molduxa, þeim einstaklingi sem hefur á einhvern hátt bætt samfélagið hér í Skagafirði með dugnaði og ósérhlífnu framlagi sem aðrir fá notið. Árið 2015 veittum við viðurkenninguna í fyrsta sinn þegar Skúli Jónsson var heiðraður. Rannveig Helgadóttir fékk viðurkenninguna 2016 og Kári Marísson á síðasta ári.

Í ár komst valnefnd Molduxa að þeirri niðurstöðu að Hrafnhildur Pétursdóttir sé verðugur fulltrúi þessarar viðurkenningar. Hrafnhildur hefur verið öflug í íþróttastarfi á Sauðárkróki eins og margir þekkja. Hefur tekið þátt í starfi yngri flokka hjá Tindastóli í um 20 ár og þar af í stjórn knattspyrnumótanna, Króksmóts og Landsbankamóts í um 15 ár og lék þar stórt hlutverk í allri skipulagningu og utanumhaldi. Hrafnhildur sat í stjórn Knattspyrnudeildar Tindastóls í mörg ár. Hún hefur verið sæmd silfurmerki UMFÍ fyrir störf sín og einnig var hún fyrst til að hljóta starfsbikar Knattspyrnudeildar Tindastóls. Eftir því sem undirritaður kemst næst er Hrafnhildur helst að stússast í kringum heimaleiki Meistaraflokks karla í körfuknattleik eins og allir hafa tekið eftir sem sækja heimaleiki Tindastóls. 

Henni tókst einnig afbragðsvel að ala upp einn besta leikmann Dominosdeildarinnar Pétur Rúnar Birgisson sem og Heru systir hans sem gerði það gott í fótboltanum. Þá er ótalinn Brynjar Rafn sem ég fékk til að rifja örlítið upp aðkomu hennar að íþróttum þeirra systkina.

"Hún er frábær fyrirmynd fyrir mann sjálfan og aðra í samfélaginu hversu dugleg hún er, ánægjan að hjálpa til og láta hlutina ganga vel fyrir sig með bros á vör svo gestir og keppendur fari með bros á vör úr Skagafirðinum. Drifkrafturinn og eljan við að fá aðra með sér er ótrúlegt.

Í sambandi við körfuboltann þá hefur hún ávallt verið til staðar að keyra á mótin í yngri flokkunum hvort sem það hefur verið síðan ég og Hera systir vorum að æfa sjálf í denn gegnum yngri flokkana eða núna þegar Pétur Rúnar brósi er. Hefur hún verið samfellt partur að íþróttalífi okkar í Skagafirði í hátt 30 ár. Ávallt er hún til í að hjálpa til svo að okkar íþróttalíf og samfélag blómstri um ókomna tíð," segir Brynjar Rafn.

Síðast en ekki síst á Hrafnhildur aðdáun skylda fyrir að hafa þolað Bigga Rafns í 35 ár sem er samfélagslegt afrek út af fyrir sig. Hann segir: "Ef ég ætti að lýsa Hrafnhildi í einni setningu: ,,Hún vill láta gott af sér leiða.”"

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir