Hrossamarkaður í Hrímnishöllinni
Dagana 20. og 21. ágúst verður hrossamarkaður í Hrímnishöllinni á Varmalæk. Ár hvert höfum við verið með opið hús og einnig sölusýningar en nú ákváðum við að breyta til og halda markaðsdaga. Boðið verður upp á gæðinga og gæðingsefni frá ungum og ótömdum trippum upp í fullmótuð hross á aldrinum vetur gömul til 10 vetra.
Þar á meðal eru ungar hryssur og stóðhestefni, ótamdir og hálftamdir geldingar upp í fullmótuð hross. Um feður hrossana má segja að þar séu nokkrir afburða stóðhestar svo sem heimsmeistarinn Tindur frá Varmalæk, Huginn frá Haga og Klettur frá Hvammi, Arður frá Bautarholti, Þokki frá Kýrholti og Aðall frá nýjabæ svo einhverjir séu nefndir. Hrossin eru flest öll úr eða út af ræktun Björns Sveinssonar á Varmalæk. Hugmyndin er að hafa gagn og gaman af ævintýrinu og geta gestir komið á þeim tíma sem hentar hverjum og einum á meðan opið er. Opið verður frá kl: 16:00 til 20:00 á laugardeginum og kl:13:00 til 18:00 á sunnudeginum. Sjón er sögu ríkari, nú er um að gera að koma og taka lagið og prútta við karlinn og fá kaffi hjá húsfreyjunni;)
Verið Velkomin í Hrímnishöllina!
Björn og Magnea á Varmalæk