Hrútavinir halda héraðshátíð á Mælifelli í kvöld
Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi leggur upp í rútuferð á Hrútadaginn mikla á Raufarhöfn nk. laugardag. Stefnt er á að koma við á höfuðstöðvum héraðanna á leiðinni og í kvöld, fimmtudagskvöld, verður blásið til mikillar héraðshátíðar á Sauðárkróki, í tilefni af 75 ára afmæli Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis á Keldum.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu er góð þátttaka í ferðinni, sauðurinn Gorbi frá Brúnastöðum er með í för en hann mun setjast að á forystufjársafninu á Svalbarði í Þistilfirði.
Áætlað er að koma við m.a. á Staðarskála í Hrútafirði í dag kl. 15, Kaupfélagssafninu á Hvammstanga kl. 15:30, Eyvindarstofu á Blönduósi kl. 17, Sauðárkróki og Hólum í Hjaltadal. Á viðkomustöðum verður m.a. rætt um sauðkindina og vitsmuni forystufjárins.
Margt verður gert sér til skemmtunar í ferðinni og með fólkinu í landinu en fararstjórar verða Guðni Ágústsson, Níels Árni Lund og Björn Ingi Bjarnason. Í samtali við Feyki segist Guðni bera þá von í brjósti að Skagfirðingar komi á Mælifell - syngi, verði glaðastir og skemmtilegastir eins og þeim einum er lagið.
„Þetta er opið hús til heiðurs Sigurði, forystukindinni og sauðkindinni á Íslandi. Það er mikilvægt að þeir sem vilja gleðjast með Sigurði og Hrútavinum komi á Mælifell kl. 20 en dagskrá byrjar kl. 21,“ segir Guðni að endingu.