HSN og Björgunarsveitin Strönd gera samkomulag um vettvangslið á Skagaströnd

Gengið hefur verið frá samkomulagi milli Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og Björgunarsveitinnar Strandar á Skagaströnd um uppsetningu vettvangsliðs á Skagaströnd. Gengur það út á samstarf um þjálfun og tækjabúnað vettvangsliðs á vegum Björgunarsveitarinnar.
Á vef Heilbrigðisstofnunar Norðurlands segir að Heilbrigðisstofnunin muni kosta menntun og þjálfun vettvangsliða en á næstu vikum fer tíu manna hópur frá Skagaströnd í vettvangsliðanám á vegum Sjúkraflutningaskólans. Heilbrigðisstofnunin veitir síðan vettvangsliðum endurmenntun eftir þörfum og leggur einnig til nauðsynlegan tækjabúnað til viðbótar þeim búnaði sem er í eigu björgunarsveitarinnar. Almenn ánægja ríkir innan björgunarsveitarinnar með þetta samkomulag.
„Hlutverk vettvangsliða er hugsað þannig að vettvangsliði geti verið sá sem fyrstur er á vettvang og verði fær um að veita fyrstu bráðaþjónustu áður en sjúkraflutningamenn koma á staðinn og frekari læknisaðstoð berst. Markmiðið er að svæðið verði betur í stakk búið til að bregðast við í neyð og þannig styrkt heilbrigðisþjónustu svæðisins,“ segir á vef HSN. Ennfremur segir að í ljósi undangenginna áfalla tengdum illviðri sé vert að fagna þessum samningi sem styrkja muni bæði Björgunarsveitina Strönd og heilbrigðisþjónustuna á staðnum, íbúunum til heilla.