Hugleiðingar um venjur fólks - Áskorendapenninn Þórey Edda Elísdóttir Hvammstanga

Við fjölskyldan fluttumst á Hvammstanga haustið 2014 og hafði ég þá aldrei búið úti á landi áður. Sambýlismaður minn er frá Húnaþingi vestra en sjálf er ég uppalin í Hafnarfirði.  Þegar ég var 21 árs gömul flutti ég til Malmö í Svíþjóð, bjó svo um stuttan tíma í Athens í Bandaríkjunum og síðan í Leverkusen í Þýskalandi í 4 ár.  Hver staður hefur sín sérkenni og þykir mér vænt um þá alla. Á öllum stöðum hef ég lært marga nýja hluti og hafa þeir allir haft áhrif á það hver ég er í dag.

Mér finnst mjög gaman að virða fyrir mér atferli fólks og ég hef tekið eftir því að hér á Hvammstanga eru ýmsar venjur sem ég hef ekki upplifað á öðrum stöðum.  Líklega má rekja þessar venjur til fólksfjölda staðarins. Eins og margir vita þá þekkjast hér flestir og það var mér mikil ráðgáta fyrst eftir að ég flutti hingað hvenær maður ætti að heilsa og hvenær ekki.  Á maður að heilsa sömu manneskjunni bara einu sinni hvern dag þótt maður hitti hana í kaupfélaginu um morguninn, veitingastaðnum í bænum í hádeginu og svo á pósthúsinu seinnipartinn?

Svo flækjast nú hlutirnir enn meira ef maður mætir henni síðan akandi.  Hvað þá?  Þegar ég bjó í Þýskalandi var ég þessi týpíski Íslendingur sem heilsaði bara nákvæmlega þeim sem ég þekkti vel og engum öðrum. Eftir nokkra veru þar í landi voru æfingafélagar mínir farnir að fá reglulega spurningar um það hvort ég væri alltaf svona fýld eða í eigin heimi. Þá fannst öðru fólki sem æfði á sama stað ég svona dónaleg að heilsa þeim ekki þótt ég þekkti þau ekki neitt. Eftir þetta fór ég að heilsa mun meira og helst alltaf öllum. Ég er því nokkuð viss um að mörgum hér á staðnum þyki ég heilsa þeim kannski fulloft.

Annað sem ég hef pælt nokkuð í er það hvað fólk er alltaf tilbúið til að skemmta sér saman. Þá  meina ég sama fólkið. Á höfuðborgarsvæðinu er maður vanur að segja við vini sína að þó maður hittist sjaldan er eins og maður hafi samt bara hist í gær. Hér hittast vinirnir hinsvegar daglega og þegar fólk fer að skemmta sér þá er alltaf eins og allir séu að hittast eftir langan aðskilnað, það hafa allir svo margt að segja. Fólk skemmtir sér saman fram á rauða nótt, jafnvel þótt það hafi kannski hist í partýi kvöldið áður. Það er eitthvað sem er voðalega notalegt við það.

Að lokum langar mig að nefna hausverkinn sem fólk hlýtur að upplifa þegar það fer á veitingastað að fá sér að borða en á öllum borðum sitja vinir eða kunningjar. Mér finnst aðdáunarvert hvernig fólk ræður úr því hvar það sest.

Ég skora á Sveinbjörgu Rut Pétursdóttur að taka við pennanum.

Áður birst í 3. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir