Húnavaka 2020

Húnavaka, bæjarhátíð Blönduósinga, verður haldin dagana 16.-19. júlí. Er þetta í sautjánda sinn sem hátíðin er haldin og verður um nóg af velja fyrir gesti og gangandi. Dagskrá hátíðarinnar er mjög fjölbreytt og er eitthvað í boði fyrir alla aldurshópa.

Að venju munu Blönduósingar skreyta hús sín og garða með alls konar fígúrum fyrir hátíðina, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Verðlaun verða veitt fyrir best skreytta húsið, frumlegustu og flottustu fígúruna og fyrir götuna með flestar fígúrur. Bjórbingó verður svo að kvöldi fimmtudagsins í Félagsheimilinu.

Föstudaginn 17. júlí munu fyrirtæki og stofnanir á svæðinu opna hús sín fyrir gestum og bjóða upp á veitingar og tilboð. Bókamarkaður opnar í Héraðsbókasafninu kl 13 og verður opinn alla helgina og einnig mun Flugklúbbur Blönduóss bjóða upp á útsýnisflug alla helgina ef verður leyfir. Síðdegis verður fjölskylduskemmtun á skólalóðinni að ógleymdu Kótilettukvöldi í Eyvindarstofu.

Laugardagurinn 18. júlí er svo hápunktur hátíðarinnar en þá fer fram golfmót á Vatnahverfisvelli, opið mót í ólympísku skeet verður á skotsvæði Markviss og árlegt Blönduhlaup USAH. Meðal dagskráliða yfir daginn verður söguganga um gamla bæinn, útsýnisflug, sundlaugarpartý, orgeltónleikar, fótboltaleikur og margt fleira. Dagurinn endar á Pallaballi í Félagsheimilinu.

Sunnudaginn 19. júlí verður spurningakeppni fjölskyldunnar, árleg Prjónaganga á Húnavöku, sápurennibraut í brekkunni fyrir neðan kirkjuna, Stofutónleikar í Heimilisiðnaðarsafninu og Jóga í Kvenfélagsgarðinum.

Frekari upplýsingar um hátíðarhöldin og dagskrá Húnavöku 2020 er að finna á Facebook síðu hennar.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir