Hungurdiskar á Skagaheiði :: Sjaldgæft heiti á vel þekktu fyrirbrigði

Það er algengt að óreglulega lagaðir hungurdiskar myndist í ísköldum sjónum en sjaldgæfara að sjá þá svo reglulega kringlótta líkt og á meðfylgjandi mynd sem tekin var á Skagaheiði um helgina. Mynd: Guðmundur Sveinsson.
Það er algengt að óreglulega lagaðir hungurdiskar myndist í ísköldum sjónum en sjaldgæfara að sjá þá svo reglulega kringlótta líkt og á meðfylgjandi mynd sem tekin var á Skagaheiði um helgina. Mynd: Guðmundur Sveinsson.

Það var fallegt um að litast á Skagaheiðinni um helgina er Guðmundur Sveinsson, rjúpnaskytta á Sauðárkróki, fór þar um í veiðihug. Vildi hann lítið gefa upp um feng eða nákvæma staðsetningu þegar Feykir falaðist eftir mynd, sem hann setti á Facebook-síðu sína, til að birta í blaðinu.

„Við rjúpnaveiðimenn segjum sjaldnast alveg satt um staðsetningu, en þessi mynd er tekin á Skagaheiði við Selá sem síðar fellur niður við samnefndan bæ,“ sagði Guðmundur og lét ekki meira uppi að sinni. Myndin er af svokölluðum hungurdiskum en við það nafn kannast margir vegna Facebooksíðu sem ber sama nafn en þar er fjallað um veður og veðurfar, skilgreind sem útibú veðurbloggs Trausta Jónssonar, hins kunna veðurfræðings.

Þegar leitað er að orðinu hungurdiskar verður lítið um svör og gúgglið sýnir nær eingöngu Facebooksíðu Trausta svo það var einsýnt að taka yrði upp tólið og hringja í veðurfræðinginn og forvitnast um hungurdiskanafnið.

„Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, stal þessu orði frá Matthíasi Jochumssyni en Matthías átti þó tæknilega ekki við þetta fyrirbrigði nákvæmlega, heldur átti við hafísjaka yfirleitt. En Jón þýddi árið 1967 bók eftir Friðþjóf Nansen sem heitir Hjá selum og hvítabjörnum en í bókinni voru teikningar eftir Nansen og þ.á.m. af svona ís af þessu tagi úti á hafi og þar notaði Jón þetta orð. Þetta var oft áður kallað lummuís eða pönnukökuís á ensku, sem er kannski eðlilegra orð, þannig lagað séð. En þetta er eiginlega bara á þessum tveimur stöðum í eldri textum, í kvæði eftir Matthías og í myndatexta hjá Jóni en myndin sem ég nota á Facebook er eftir Nansen.“ Trausti segist hafa valið þetta orð fyrir Facbooksíðuna þar sem það væri svo sjaldgæft og auðvelt að finna í leitarvélum.

„Hugsunin hjá Jóni var að þetta væri ís sem væri að byrja að myndast. Maður sér þetta oft en sjaldan svona vel diskalagað eins og á þessum myndum Guðmundar. Maður hefur séð myndir af þessu alveg upp í marga metra í þvermál.“ Trausti segir að þegar lögunin er hringlaga gerist það þegar ísinn snýst í straumiðum en á sjó sé lögunin aðeins óreglulegri þegar hafís er að byrja að myndast.

Ertu kominn, landsins forni fjandi?

Jón Eyþórsson, sem Trausti nefnir, var veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands frá 1926-1965. Hann var fæddur á Þingeyrum í Húnavatnssýslu 27. janúar 1895, dáinn 6. mars 1968. Auk veðurfræðistarfa var hann forseti Ferðafélags Íslands (með hléum) frá 1935 til 1961 og formaður Jöklarannsóknafélags Íslands í mörg ár frá 1950.

Eins og fram kemur hér að framan kemur orðið hungurdiskar fyrir í kvæði Matthíasar, Hafísinn, sem byrjar á þessa leið:

Ertu kominn, landsins forni fjandi?
Fyrstur varstu enn að sandi,
fyrr en sigling, sól og bjargarráð.
Silfurfloti, sendur oss að kvelja!
situr ei í stafni kerling Helja,
hungurdiskum hendandi´ yfir gráð?
Svignar Ránar kaldi móður-kviður,
knúinn dróma, hræðist voðastríð,
stynur þungt svo engjast iður;
eins og snót við nýja hríð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir