Húnvetnsku laxveiðiárnar standa sig vel
Húni.is segir frá því að veiði er nú lokið í helstu laxveiðiám í Húnaþingi. Blanda bætti met sitt frá því í fyrra um 364 laxa og endaði í 2.777 löxum samkvæmt tölum á vef Landssambands veiðifélaga, Angling.is.
Metið er athyglisvert í ljósi þess að Blanda fór á yfirfall mánuði fyrr í sumar en í fyrra en mikil veiði í upphafi tímabilsins lagði grunninn að góðu sumri í Blöndu að þessu sinni. Þá var stórlax áberandi í Blöndu í sumar.
Veiði í Svartá var mjög góð í sumar þar sem 562 laxar komu á land í samanburði við 428 í fyrra. Á vefsvæði Lax-a.is segir að elstu skrásettu veiðitölur úr Svartá séu frá 1974 og hafi aðeins eitt ár verið betra en árið í ár en það var árið 1998 þegar rúmlega 600 laxar komu á land. Þá segir að stórlaxahlutfallið í Svartá í ár hafi verið eitt það besta sem skráð hafi verið en 65% af veiddum löxum voru yfir 3,5 kíló eða yfir 70 cm.
Vatnsdalsá gaf 1.223 laxa í sumar sem er 297 löxum færra en í fyrra. Veiði hefur þrátt fyrir það verið góð með tilliti til stórlaxins. Á vefsvæði árinnar segir að af þeim tæplega 550 stórlöxum sem veiðst hafa í sumar sé meðalþyngd þeirra 5,9 kíló og var stórlaxa hlutfallið um og yfir 50%.
Laxá á Ásum endaði í 763 löxum að þessu sinni sem er 379 löxum færra en í fyrra sem þá var met veiði í ánni. Meðalveiði á stöng á dag er samt sem áður ágæt eða 5-6 laxar en einungis er veitt á tvær stangir í ánni.
Vel veiddist í Miðfjarðará í sumar eins og síðasta sumar og endaði áin í 4.043 löxum en það er 39 löxum meira en í fyrra. Víðidalsá náði ekki að fylgja eftir frábæru sumri í fyrra og endaði að þessu sinni í 1.254 löxum sem er 765 löxum færra en í fyrra. Af öðrum ám í Húnaþingi má nefna að í Hrútafjarðará og Síká veiddust 503 laxar og í Hallá voru 75 laxar komnir á land í lok ágúst en nýjar tölur vantar úr ánni.
Af þessum tölum má sjá að Húnvetnsku laxveiðiárnar hafa svo sannarlega staðið fyrir sínu enn eitt sumarið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.