Húsfyllir á afmælishátíð HSS
Afmælishátíð Hrossaræktarsambands Skagfirðinga var haldin í Melgsgili sl. laugardagskvöld en á þeim stað fyrir 40 árum var sambandið stofnað. Margir lögðu leið sína á afmælisfagnaðinn og nutu góðra veitinga þar sem borðin svignuðu undan veisluföngum.
Veislustjóri kvöldsins var Bjarni Maronsson sem eins og fyrr fór á kostum. Sveinn Sigfússon sýndi gamlar kvikmyndir, önnur var tekin rétt fyrir ´70 af Melsgilsferð hestamanna í Skagafirði og hin var tekin upp áratugum fyrr og er frá hestamannamóti á Vallabökkunum. Þetta vakti mikla lukku gesta og var fróðlegt að sjá aðstæður og hrossakost liðinna tíma.
Ingimar Ingimarsson formaður HSS flutti skemmtilega og fróðlega samantekt úr sögu félagsins frá fyrstu 15 starfsárum þess. Honum til aðstoðar var Ólafur Sigurgeirsson sem las beinar tilvitnanir úr fundargerðarbókum. Meðal þess sem fram kom var að árið 1985 átti sambandið að fullu eða að hluta 13 stóðhesta og þar á meðal helstu máttarstólpa á bak við ræktunina í dag s.s. Hrafn, Hervar og Sörla.
Að lokinni þessari yfirferð voru veittar viðurkenningar fjórum mönnum sem allir höfuð leikið stórt hlutverk í því að byggja upp Skagfirska hrossarækt. Það voru þeir Einar Gíslason sem var framkvæmdarstjóri og formaður HSS til fleiri ára, Egill Bjarnason, sem kom mikið að starfsemi HSS bæði sem ráðunautur og framkvæmdarstjóri sambandsins, Friðrik Stefánsson sem var formaður HSS til fjölda ára og Sveinn Guðmundsson sem var varaformaður og stjórnarmaður í HSS um langt skeið.
Afreksverðlaun voru veitt fyrir framúrskarandi árangur á árinu og voru þau eftirfarandi:
Ófeigsbikarinn - hrossaræktarbú ársins kom í hlut Hafsteinsstaða. Þar skipti sköpum glæsilegur árangur Hafsteinsstaðahrossanna á Íslandsmóti en 6 hross frá búinu kepptu þar til úrslita og þar á meðal varð Drífa Íslandsmeistari.
Sörlabikarinn - veittur hæst dæmda kynbótahrossinu. Þar stóð langefst Þóra frá Prestsbæ með 8,72 í aðaleinkunn.
Kraftsbikarinn - veittur þeim sýnanda kynbótahrossa búsettum í Skagafiðri sem bestum árangri hefur náð á árinu. Bjarni Jónasson hlaut þá viðurkenningu, annað árið í röð. Bjarni sýndi 19 hross á árinu, 13 af þeim náðu yfir 8 í aðaleinkunn og mörg með mjög háa hæfileikaeinkunnir, þar á meðal Vænting frá Brúnastöðum, Gáta frá Ytra-Vallholti og Djásn frá Hnjúki.
Hestaíþróttamenn ársins voru einnig verðlaunaðir og voru eftirfarandi:
- Barnaflokki - Ásdís Ósk Elvarsdóttir
- Unglingaflokki - Steindóra Ólöf Haraldsdóttir
- Ungmennaflokki - Sigurður Pálsson
- Fullorðinsflokki - Þórarinn Eymundsson.
Þá var Guðmar Freyr Magnússon verðlaunaður sérstaklega fyrir einstakt afrek en hann varð Íslandsmeistari í skeiði á Íslandsmóti barna, unglinga og ungmenna sem haldið var á Hvammstanga í sumar. Kom hann fyrstur í mark allra keppenda þrátt fyrir ungan aldur en hann er aðeins 10 ára gamall.