Hvammstangi suðupottur menningar

Menningarsetrið Holt á Hvammstanga og kötturinn Skriða. Mynd:Facebooksíðan Holt-menningarsetur -Hvammstanga.
Menningarsetrið Holt á Hvammstanga og kötturinn Skriða. Mynd:Facebooksíðan Holt-menningarsetur -Hvammstanga.

Veftímaritið Úr vör, sem fjallar um hvernig fólk á landsbyggðinni notar skapandi aðferðir til að leita lausna, komst nýlega á snoðir um að að Hvammstangi væri suðupottur menningar og listar, eins og segir í frétt þess, en þar var tekið hús á þeim Birtu Þórhallsdóttur og Sigurvald Ívari Helgasyni sem standa að baki menningarsetrinu Holti og bókaútgáfunni Skriðu sem hóf starfsemi nýlega.

Birta og Sigurvald bjóða upp á litla menningarviðburði sem eru, að þeirra sögn, ekki mjög reglulega, heldur bara þegar færi gefst og tími frá öðrum verkefnum. Er þar um að ræða fjölbreytta viðburði sem gefi fólki færi á að komast í návígi við rithöfunda og listamenn og eru þeir settir upp í litlu stofunni í litla gamla húsinu þeirra á Hvammstanga. Að Birtu sögn var fyrsti viðburðurinn haldinn í ágúst í fyrra á 20 ára afmælishátíð Húnaþings vestra.

Birta og Sigurvald segja að nóg sé um að vera í menningarlífinu á Hvammstanga, „of mikið að gera ef eitthvað er," er haft eftir Birtu sem segir að Hvammstangi sé með betri smáþorpum á Íslandi hvað varðar menningarstarfsemi og þannig verkefnum sé vel tekið miðað við á mörgum öðrum stöðum. Sigurvald segir að mikið sé lagt upp úr því og fólk meti það mikils og veiti því viðurkenningu. „Ég held að starfsemin hjá okkur sé orðin ómissandi þáttur í lífi fólks. Fólk hittist og er kannski að grúska í einhverju sem það hefur ekki gert áður. Þetta víkkar út sjóndeildarhringinn.“ segir Sigurvald í samtali við Úr vör.

Viðtalið í heild sinni má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir