Hvatningarverðlaun dags gegn einelti – Verðlaunagripurinn gerður í FNV
Vináttuverkefni Barnaheilla hlaut hvatningarverðlaun dags gegn eineltis 2017. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaunin við athöfn sem haldin var í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þann 8. nóvember sl. og var það Kolbrún Baldursdóttir, formaður Barnaheilla sem tók við þeim. Verðlaunagripurinn sem veittur var er skagfirskur, smíðaður í FNV.
Á heimasíðu Menntamálastofnunar segir að Vináttuverkefni Barnaheilla sé forvarnarverkefni gegn einelti fyrir leikskóla og fyrstu bekki grunnskóla. Verkefnið Vinátta er danskt að uppruna og nefnist Fri for mobberi á frummálinu. Um er að ræða námsefni sem gefið hefur verið út og ætlað er leikskólum og 1. – 3. bekk grunnskóla.
Verkefnið Vinátta miðar að því að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag og vinna með styrkleika hvers og eins. Áhersla er á gildi margbreytileikans, góð samskipti og jákvæð viðhorf til allra í hópnum.
Viðurkenningin sem verkefnið Vinátta fékk er verðlaunagripur úr stáli og plexigleri eftir Björn Jóhannes Sighvatz og Karitas Sigurbjörgu Björnsdóttur. Verðlaunagripurinn var smíðaður við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í samvinnu við Fab Lab Sauðárkróks. Höfundar lýsa verðlaunagripnum þannig: „Hann er hugsaður sem sterkur stálgrunnur sem fær tengingu við náttúru Íslands með tilvísun í stuðlabergið. Því öll þurfum við sterkan grunn til þess að vaxa og dafna. Hann hefur á yfirborðinu nokkur skammarstrik því börn eru að læra og þurfa að fá tækifæri til þess að gera mistök. Speglunin á yfirborðinu gefur til kynna að við þurfum að hugsa um alla í kringum okkur. Við þurfum einnig að geta speglað okkur í gjörðum og athöfnum annarra. Að leiðast er tákn trausts og virðingar.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.