Hvatningarverðlaun SSNV til Ferðaþjónustunnar á Brekkulæk

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) veitir árlega hvatningarverðlaun til fyrirtækis á starfssvæði samtakanna. Hvatningarverðlaun SSNV atvinnuþróunar hafa verið veitt frá árinu 1999 og eru þau í senn hvatning til áframhaldandi starfsemi og viðurkenning fyrir góðan árangur. Markmið verðlaunanna er að hvetja til nýsköpunar og þróunar og vekja athygli á því sem vel er gert á Norðurlandi vestra. Að þessu sinni er það Ferðaþjónustan á Brekkulæk í Miðfirði sem hlýtur verðlaunin vegna þess frumkvæðis og framsýni sem eigendur hafa sýnt við uppbyggingu fyrirtækisins.

Ferðaþjónustan á Brekkulæk.

Ferðaþjónustan á Brekkulæk var stofnuð árið 1979 af Arinbirni Jóhannssyni og Gudrunu

Kloes. Fyrirtækið var brautryðjandi í sölu og markaðssetningu á skipulögðum hestaferðum

fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi og hefur sá þáttur alla tíð verði kjarninn í starfseminni.

Mikill frumkvöðlaandi hefur allt frá upphafi einkennt uppbyggingu og vöruþróun

fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur á umliðnum árum verið leiðandi í nýsköpun og vöruþróun

ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Það öfluga starf hefur leitt af sér áhugaverðar nýjungar sem

síðar hefur orðið öðrum fyrirtækjum hvatning og fyrirmynd í vöruframboði til ferðamanna.

Má þar nefna gönguferðir um hálendið, fuglaskoðun, þátttöku í göngum og réttum,

reiðhjólaferðir, vetrardvöl í sveit o.fl.

Ferðaþjónustan að Brekkulæk hefur allt frá upphafi horft markvisst til sölu og

markaðssetningu erlendis. Helstu markaðir eru í Þýskalandi, Hollandi, Frakklandi, Sviss og

Austurríki. Fyrirtækið var á sínum tíma leiðandi í stofnun Ferðamálafélags Vestur-

Húnavatnssýslu og tók einnig virkan um stofnun Ferðaþjónustu bænda.

Verðlaunagripurinn 2010

Verðlaunagripurinn í ár er hannaður og unninn af Grétu Jósefsdóttur. Gréta er leirlistarkona,

búsett að Litla-Ósi í Miðfirði, þar sem hún hefur vinnustofu sína og rekur jafnframt gallerí.

Hvatningarverðlaun SSNV hafa áður verið veitt eftirtöldum aðilum:

Árið 2009 Léttitækni ehf á Blönduósi

Árið 2008 Sjávarleður hf á Sauðárkróki

Árið 2007 - Siglufjarðar Seigur bátasmiðja.

Árið 2006 - Forsvar ehf á Hvammstanga.

Árið 2004 - Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi.

Árið 2003 - Háskólinn á Hólum.

Árið 2002 - Síldarminjasafnið á Siglufirði.

Árið 2001 - Hestamiðstöðin Gauksmýri.

Árið 2000 - Vesturfarasetrið á Hofsósi.

Árið 1999 - Kántrýbær á Skagaströnd.

Fleiri fréttir