Hvor ætlar að gefa málið sitt upp á bátinn?
Þversögnin sem þeir treysta sér ekki til að rjúfa er þessi. Vinstri grænir og Samfylking ætla saman í ríkistjórn eftir kosningar, hvað sem það kostar. Málefni ráða ekki för. Þetta er eins og Þorsteinn Pálsson segir í leiðara Fréttablaðsins í dag. Það verður ekki valdakreppa eftir kosningar, en það verður hins vegar málefnaleg stjórnarkreppa, af því að flokkarnir sem ætla að starfa saman eru út og suður í fjölmörgum málum.
Landbúnaðarmálum, evrópumálum, atvinnumálum, stóriðjumálum..... Og þannig má lengi áfram telja.
Þrátt fyrir margar atrennur þá vilja hinir meintu stjórnarflokkar ekki svara því hvernig þeir ætla að leysa úr evrópuflækjunni sinni. Það er þó næsta víst að fyrir því hafa þeir hugsað. Annað getur hreinlega ekki verið.
Við vitum að Samfylkingin er alveg skýr á því. Sækjum um aðild strax í júní segir Jóhanna Sigurðardóttir formaður flokksins. Björgvin G Sigurðsson alþingismaður er enn harðari og útilokar einfaldlega stjórnarsamstarf sem ekki lýsir vilja til tafarlausrar inngöngu í ESB. Samfylking gefur ekkert rými til samninga um þetta mál. Það er annað hvort af eða á.
En Vinstri grænir þegja og eða svara óljóst. Allt er umsemjanlegt segir Steingrímur J. Stefna þeirra af landsfundi er hins vegar skýr. Klár andstaða við ESB.
Það liggur fyrir að Samfylking og Vinstri grænir ætla saman í stjórn. Það liggur fyrir að einvörðungu stefna annars flokksins verður ofan á í þeirri ríkisstjórn. Hinn flokkurinn verður því að svíkja kjósendur sína.
Í kosningabaráttunni hefur komið skýrt fram að Samfylkingin ætlar ekki að bakka út úr þessu máli. VG liðar svara óskýrt. Kjósendur geta síðan metið hvor flokkurinn hyggst standa á meiningu sinni og hvor ætlar að gefa málið sitt upp á bátinn.
Einar K. Guðfinnsson alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.