Íbúafundir vegna dreifnáms
Íbúa- og kynningarfundir vegna framhaldsdeildar (dreifnáms) verða haldnir í Austur-Húnavatnssýslu dagana 6. – 7. mars. Fundirnir eru opnir öllum íbúum Austur-Húnavatnssýslu, samkvæmt auglýsingu í nýjasta eintaki Gluggans, og eru allir hjartanlega velkomnir en foreldrar elstu nemenda grunnskólanna eru sérstaklega hvattir til að mæta.
Á fundinum mun Þorkell Þorsteinsson, aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, fara ítarlega yfir starfsemi deildarinnar og Rakel Runólfsdóttir umsjónarmaður dreifnáms FNV á Hvammstanga kynnir hvernig til hefur tekist með uppbyggingu dreifnámsins á Hvammstanga.
Einnig munu framhaldsskólanemar frá Hvammstanga segja frá því hvernig það er að vera nemandi í dreifnámi. Fulltrúar sveitarfélaga í A-Hún. munu skýra frá undirbúningi heima í héraði. Auk kynninganna verður tekið við fyrirspurnum úr sal.
Fundirnir verða haldnir á eftirfarandi stöðum:
- Á Skagaströnd í Félagsheimilinu kl. 18:00 miðvikudaginn 6. mars nk.
- Á Blönduósi í Félagsheimilinu kl. 20:00 fimmtudaginn 7. mars nk.
