Íbúðarmat fasteigna hækkar mest í Akrahreppi

Blönduós. Mynd: Róbert Daníel Jónsson.
Blönduós. Mynd: Róbert Daníel Jónsson.

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 2,1% frá yfirstandandi ári og verður 9.429 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands fyrir árið 2021. Þetta mun vera umtalsvert minni hækkun en tilkynnt var um fyrir ári síðan þegar fasteignamat hækkaði um 6,1% á landinu öllu. Af einstaka bæjarfélögum hækkar heildarfasteignamat mest á Ísafirði eða um 11,2%, um 8,8% í Akrahreppi og 8,5% í Tálknafjarðarhreppi og á Blönduósi.

Mest hækkun á Vestfjörðum
Á vef Þjóðskrár kemur fram að heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 2,2% en um 1,9% á landsbyggðinni. Þar af er mest hækkun á Vestfjörðum eða 8,2%, um 6,5% á Norðurlandi vestra, 3,5% á Austurlandi og um 2,2% á Suðurlandi, 1,9% á Norðurlandi eystra, um 0,4% á Vesturlandi, og lækkun um 0,5% á Suðurnesjum.

Af einstaka bæjarfélögum hækkar heildarfasteignamat mest á Ísafirði eða um 11,2%, um 8,8% í Akrahreppi og 8,5% í Tálknafjarðarhreppi og á Blönduósi. Mest lækkun er í Skorradalshreppi og Sveitarfélaginu Vogum þar sem fasteignamatið lækkar um 3,6%.

Almennt eru litlar breytingar á aðferðarfræði fasteignamats á milli ára. Aðferð við lóðarmat var endurskoðuð auk þess sem hætt er að að nota sérstaka matsaðferð á búgarða. Einnig er verið að endurskoða hlunnindamat jarða og færa það til nútímahorfs. Að öðru leyti er helsta breytingin hagnýting á gervigreind sem styrkir núverandi aðferðarfræði og líkanagerð við fasteignamat.

Íbúðarmat hækkar mest í Akrahreppi
Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkar um 2,3% á milli ára og verður alls 6.511 milljarðar króna, þar af hækkar sérbýli um 2,2% á meðan fjölbýli hækkar um 2,4%. Almennt er hækkun á íbúðarmati á höfuðborgarsvæðinu 2,4% en 2,1% á landsbyggðinni.

Fasteignamat íbúða hækkar mest í Akrahreppi en þar hækkar íbúðarmatið um 17,8%, á Ísafirði um 15,5% og í sveitarfélaginu Ölfusi um 15,2%. Mestu lækkanir á íbúðamati eru í sveitarfélaginu Vogum þar sem fasteignamat íbúða lækkar um 5,2%, Í Vopnafjarðarhreppi lækkar matið um 3,6% og í Reykjanesbæ þar sem fasteignamat íbúða lækkar um 3,3%.

Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 1,7% á landinu öllu; um 1,6% á höfuðborgarsvæðinu en um 1,9% á landsbyggðinni.

Breyting fasteignamats

Sérbýli

fjölbýli

atvinnuhúsnæði

Höfuðborgarsvæði

1,7%

3,0%

1,6%

Landsbyggð

3,3%

2,0%

1,9%

Landið allt

2,2%

2,4%

1,7%

 

Fasteignamat sumarhúsa nær óbreytt
Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2021 stendur nánast í stað á milli ára þegar litið er á landið í heild en hækkar að meðaltali um 0,1%. Fasteignamat sumarhúsa hækkar mest í sveitarfélaginu Ölfusi eða um 7,7% og um 6,8% í Ásahreppi. Mesta lækkun á fasteignamati sumarhúsa er í Skorradalshreppi og Sveitarfélaginu Vogum þar sem matið lækkar um 4,3% á milli ára.

Eigendur fasteigna geta frá 15. júní nálgast tilkynningarseðil um mat á eignum sínum í pósthólf sitt á www.island.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir