Íbúum Akrahrepps fjölgar hlutfallslega mest
Þjóðskrá Íslands sendi frá sér tölur um íbúafjölda í byrjun aprílmánaðar eins og vant er um mánaðamót. Þar kemur fram að Íslendingum hefur fjölgað um 0,5% frá 1. desember eða um 1.735 manns og eru landsmenn nú 365.863. Fjölgun hefur orðið í öllum landshlutum nema Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra þar sem varð lítilsháttar fækkun.
Á Norðurlandi vestra fjölgaði um 13 íbúa á tímabilinu eða um 0,2%. Þar fjölgaði í þremur sveitarfélögum af sjö en lítilsháttar fækkun varð í fjórum. Íbúar landshlutans eru nú 7.340.
Af einstökum sveitarfélögum varð fjölgunin mest í Sveitarfélaginu Skagafirði þar sem 16 nýir íbúar hafa bæst við sem er hlutfallsleg fjölgun upp á 0,4% og er íbúafjöldinn þar 4.053 manns. Hlutfallsleg fjölgun er mest í Akrahreppi þar sem fjölgaði um 2% eða fjóra íbúa og þar eru nú 209 íbúar.
Í Húnaþingi vestra hefur fækkað um fimm íbúa eða 0,4% og þar búa nú 1.205 manns. 940 búa á Blönduósi en þar fækkaði um tvo eða 0,2%, á Skagaströnd fækkaði um þrjá eða 0,6% og þar er íbúafjöldinn nú 470 manns. Í Húnavatnshreppi hefur fjölgað um fjóra sem er hlutfallsleg fjölgun um 1,1%, þar er íbúafjöldinn 374 og í fámennasta sveitarfélaginu, Skagabyggð, hefur fækkað um einn eða 1,1% og þar búa nú 89 manns.
Hér má sjá töflu yfir fjölda íbúa eftir sveitafélögum þann 1. apríl sl. og samanburð við íbúatölur frá 1. desember 2018 og 2019.