Ingvi Hrannar styrktur til náms af SSNV

Stjórn SSNV hefur ákveðið að veita Ingva Hrannari Ómarssyni, kennara við Árskóla á Sauðárkróki, einnar milljón króna styrk vegna náms hans við Stanford háskóla í Bandaríkjunum en hann leggur nú stund á  framhaldsnám til M.A. gráðu í Learning, Design & Technology (LDT). Segir á heimasíðu SSNV að Ingvi Hrannar uni halda námskeið um stafrænar lausnir í kennslu fyrir kennara á starfssvæði samtakanna að námi loknu.

„Stanford​ samþykkir aðeins um 4,7% umsókna við skólann sem er af mörgum talinn sá fremsti í heiminum. Sl. 5 ár hefur Ingvi Hrannar starfað sem kennsluráðgjafi í upplýsingatækni, skólaþróun og nýsköpun á fræðslusviði Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Hann hefur verið valinn einn af 100 áhrifamestu  kennurum í heiminum af ​HundrED​ ásamt því að fá viðurkenningu og  hvatningarverðlaun „​Hafðu áhrif​“ árið 2018 fyrir framúrskarandi starf sem kennari sem  vakið hefur athygli á alþjóðavettvangi. Ingvi Hrannar var fyrsti Íslendingurinn til að verða „Distinguished Educator“ hjá Apple og „Cerified Innovator“ hjá Google. Undanfarin ár hefur Ingvi Hrannar staðið fyrir ráðstefnunni Utís í Skagafirði þar sem saman koma kennarar alls staðar af landinu og hlýða á fyrirlestra frá aðilum sem fremstir eru í flokki á sviði kennslu, tækni og nýsköpunar bæði hér á landi sem erlendis, auk þess að taka þátt í vinnustofum,“ segir m.a. á ssnv.is.

„Þetta voru ánægjulegar fréttir í morgunsárið hér í Kaliforníu. Miklar þakkir til SSNV fyrir þennan styrk sem ég mun nota til að borga hluta af skólagjöldum hér við Stanford,“ skrifar Ingvi Hrannar á Facebooksíðu sína í gær.

Sjá meira HÉR

Tengd frétt: Vel heppnaður starfsdagur skagfirsku skólanna

 

Fleiri fréttir