Íslandi allt!

Gott stuðningsfólk Íslands. Að venju hafa stuðningsmenn Íslands vakið jákvæða athygli fyrir jákvæðni og almennan hressleika. MYND: PALLI FRIÐRIKS
Gott stuðningsfólk Íslands. Að venju hafa stuðningsmenn Íslands vakið jákvæða athygli fyrir jákvæðni og almennan hressleika. MYND: PALLI FRIÐRIKS

Feykir sendi rúmlega tvær spurningar á Palla Friðriks í Póllandi í morgun en leikur Frakka og Íslendinga er nú í gangi og útlit fyrir stóran – risastóran – rassskell því þegar þetta er skrifað er þriðji leikhluti að klárast og Frakkar búnir að skora um helmingi fleiri stig en strákarnir okkar. Palli er spámannlega vaxinn og fyrir leik var hann bjartsýnn á góð úrslit og átti von á að Arnar Björns sýndi takta. Palli spáði reyndar líka sigri Íslendinga gegn Slóvenum en eitthvað klikkaði þar líka. Rétt að spyrja hann út í það til að byrja með...

Hvað klikkaði hjá spámanninum í síðasta leik? „Spámaðurinn klikkaði ekki, hann vann úr þeim gögnum sem lágu fyrir á þeim tíma sem spáin var gerð. Þetta könnumst við við þegar veðurfræðingar birta sínar spár, sem standast sjaldnast. Munurinn á þeim og mér er sá að ég fæ ekkert borgað fyrir mínar spár fyrir Feyki.“

Hvernig líst þér á Frakka? „„Flottur jakki,“ segir Árni Egils. Annars sit ég hér við borð með afburða körfuboltasérfræðingum og þeir segja yfirgnæfandu líkur á sigri. Enginn miðherji hjá þeim, sem eru annað hvort meiddir eða litlir í sér. Þriggja stiga skytturnar okkar munu hrökkva í gang og Sigtryggur Arnar mun standa upp úr, ef þessir annars ágætu þjálfarar hafa vit á því að tefla honum fram. Þá vil ég líka sjá hinn Skagfirðinginn fá nokkrar mínútur, Almar Atlason og Jennýar.

Er búið að vera gaman að vera Skagfirðingur í Póllandi, mælirðu með svona landsliðsferðum? „Hér hefur verið frábært að vera. Veðrið leikur við okkur og allir þeir Íslendingar sem ég hef hitt eru glaðir og ánægðir. Margar fjölskyldur sem taka börnin með og afþreying fyrir alla, sem nenna að bera sig eftir henni. Þetta er í annað sinn sem ég fer á Evrópumót í sumar, fór til Sviss þegar kvennaliðið atti þar kappi. Ég er orðinn háður þessu og mæli með fyrir alla að prufa a.m.k. einu sinni. Þeir sem ekki hafa gaman af sitja þá heima næst og röfla við sjónvarpið,“ segir Palli sem þrátt fyrir mikla gleði á enn eftir að sjá Ísland vinna leik á þessum mótum sem hann hefur sótt. Það hefur samt pottþétt ekkert með hann að gera.

Í lokinn minnir Palli fólk á að Molduxar munu halda sérstaka móttöku í anddyri Novotel hótelsins klukkan 17:05 - 17:29, eins og sjá má á Facebook-síðu Molduxa. Íslandi allt!

P.S. Staðan er 92-50 og fjórði leikhluti kominn í gang...

- - - - - -
Aðeins hefur bæst í myndasyrpuna síðan á þriðjudaginn.

Fleiri fréttir