Skóna út í glugga... | Leðari 47. tölublaðs Feykis
Nú er hálfur mánuður til jóla og enginn skilur neitt í því hvað varð um árið sem er að líða. Kannski er maður bara orðinn svona gamall og ruglaður en ég man varla eftir að það hafi verið vont veður á árinu. Auðvitað hefur veðrið ekki alltaf verið gott en verulega vont... nei, hringir ekki bjöllum.
Í heiminum er það helst að Donald John í Hvíta húsinu verður óvinsælli með hverri vikunni sem líður. Hann verður sífellt örvæntingarfyllri og sjálf-umglaðari, hvernig svo sem það nú er hægt. Nýjasta hjólið sem hann og félagar hans hafa fundið upp er að samvinna þjóða á milli sé ekki af hinu góða. Skynsamlegra sé að reka ríki eins og fyrirtæki en eftir því sem maður kemst næst hefur Trump ekki beinlínis verið fyrirmyndar rekstarmaður í gegnum tíð-ina – ekki verið mikið í því að borgar reikningana sína. Gæti auðvitað verið feik njús, hvað veit maður í dag.
Trump fékk loksins friðarverðlaun í síðustu viku. Að vísu ekki þessi sem hann langar verulega mikið í og kennd eru við Nóbel sem fann upp dínamítið. Já, svona er nú margt öfug-snúið í þessum blessaða heimi. Friðarverðlaun dínamít-bóndans. En nei, Nóbelsnefndin sér enn í gegnum Trump en Fótboltafélagsskapur heimsins fílar hann í botn. Eða vill kannski bara dekra við hann og hossa þar sem HM í fótbolta fer fram í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada á næsta ári. Það verður bara einn sigurvegari á því móti, forsetinn, og er þegar kominn með medalíu. Friðarverðlaun fótboltans. Húrra...!?
Hér á Íslandi er allt í gúddí. Nema auðvitað að ríkisstjórn-inni hefur tekist að gera hann Ársæl okkar að helsta óvini ríkisins. Bara af því að hann, skólameistari Borgarholtsskóla, mátti ekki vera að því að fara að leita að skóm barnabarns Ingu Sæland og sendi einhvern annan í verkið. Það þekkja allir þessa sögu en einhvernveginn hefur tekist að gera Sæla að vonda kallinum. Það er vandlifað.
Samgönguáætlun var kynnt í síðustu viku og það tók ekki nema örfáar mínútur að gera allt vitlaust fyrir austan og það smitaðist síðan yfir í alla stjórnarandstöðuna. Sennilega einhvers konar hlaupabóla. Ég veit ekki annað en að við hér fyrir norðan höfum bara verið sátt við Eyjólf og hans stóru fallegu áætlun sem setur Fljótagöng í forgang. Það er auðvitað aukaatriði í fjölmiðlum.
En það gerist samt margt fallegt á okkar landi þar sem jólaljósin lýsa nú upp kolsvart myrkrið. Fólk gefur af sér á þessum tíma, færir gjafir sem létta undir þar sem það skiptir máli. Styrkir SOS barnaþorp, Ljósið, Hjálparstofnun kirkj-unnar og allt hitt. Á dögunum var stofnað Farsældarráð Norðurlands vestra í þágu barna sem er hið besta mál. Jóla-tónleikar vítt og breytt fylla hjörtu fólks og skammdegið af hlýju. Sömuleiðis var eitthvað svo innilega fallegt að sjá hversu vel var tekið í framtak körfuknattleiksdeildar Tindastóls, Bangsaleikinn, til stuðnings Einstökum börnum.
Hún er góð tilfinningin þegar manni finnst maður hafa gert eitthvað gott. Jafnvel svo góð að maður gæti freistast til að setja (báða) skóna út í glugga fyrst jólasveinarnir eru væntanlegir til byggða. Svo er bara að muna hvar maður setti þá svo fjandinn verði ekki laus...
Óli Arnar Brynjarsson, ritstjóri
