Íslandsmeistararnir í heimsókn í kvöld
5. umferð Iceland Express deildarinnar hefst í kvöld með þremur leikjum. Þá koma Íslandsmeistararar Snæfells í heimsókn í Síkið þar sem Tindastóll ætlar að beita öllum brögðum og vinna leikinn.
Snæfellingar sitja í 2. - 4. sæti með 6 stig, hafa unnið þrjá af fjórum fyrstu leikjum sínum. Tindastóll situr eins og áður hefur komið fram, á botni deildarinnar án sigurs eftir fjórar umferðir.
Lið Íslandsmeistaranna er nokkuð breytt frá því þeir unnu titilinn á síðasta tímabili. Hlynur Bæringsson er farinn í atvinnumennsku til Svíþjóðar, Sigurður Þorvaldsson leikur ekki með liðinu og Martins Berkis og Páll Fannar Helgason réru á önnur mið. Í staðinn hafa þeir Hólmarar fengið Ryan Amaroso, gríðarlega öflugan leikmann og Lauriz Mizis frá Lettlandi. Snæfellingar eru með sama leikstjórnanda og áður, Sean Burton, en kappinn sá hefur gefið að meðaltali 5.5 stoðsendingar í leikjum liðsins í vetur. Amaroso er stigahæstur leikmanna Snæfells með 24.5 stig en hann er líka frákastahæstur með 10.5 fráköst. Þá eru í Snæfellsliðinu kunnir kappar eins og Pálmi Freyr Sigurgeirsson og Nonni Mæju, en þeir hafa verið að spila vel það sem af er.
Leikurinn hefst kl. 19.15 í og eru allir hvattir til að koma og hjálpa strákunum í baráttunni. Í hálfleik eru það Verslunin Eyri og FISK sem etja kappi í fyrirtækjaleiknum. Það eitt og sér ætti að vera mögnuð skemmtun.