Íslandsmeistararnir mörðu spræka Stóla

 

Það var boðið upp á fínan körfuboltaleik í Síkinu í gærkvöldi þegar Tindastólsmenn fengu meistaralið Snæfells í heimsókn í 5. umferð Iceland Express deildarinnar. Leikurinn var jafn og spennandi en sérstaklega voru loka andartökin áhorfendum erfið en þá hljóp lukkan í lið með gestunum sem hömpuðu tveggja stiga sigri, 92-94.

Gengi Tindastólsmanna hefur verið grátlegt í upphafi móts, allir leikir tapast og í öllum tilfellum leiðinlega stórt. Stuðningsmenn Stólanna voru því kannski ekki bjartsýnir fyrir leikinn gegn sigursæli liði Snæfells. En leikirnir eru auðvitað ekki búnir fyrr en feitu kallarnir flauta og því óþarfi að gefast upp fyrir fram.

Stólarnir komu kátir til leiks og greinilegt að menn ætluðu ekki að gefa eitt eða neitt. Staðan var fljótlega orðin 10-2 fyrir heimamenn og Snæfellingum voru mislagðar hendur í sóknarleiknum. Þeir komust þó betur inn í leikinn þegar á leið leikhlutann og var Sean Davis seigur eins og hans var von og vísa. Að loknum fyrsta leikhluta höfðu Stólarnir 3ja stiga forskot, 26-23.

Gestirnir náðu strax yfirhöndinni í öðrum leikhluta og um miðjan leikhlutann var forysta þeirra komin í 10 stig, staðan 33-43. Baráttan í Tindastólsliðinu var hins vegar til fyrirmyndar og voru Rikki, Kitanovic og Rivers duglegir í stigaskorinu. Stólunum tókst að hanga í meisturum Snæfells og í hálfleik munaði 6 stigum, staðan 44-50.

Snæfellingar spýttu í lófana í byrjun þriðja leikhluta og voru þeir Jón Ólafur og Amoroso drjúgir. Gestirnir voru sterkir í teignum og skoruðu grimmt þar á meðan að Tindastólsmönnum gekk ansi vel fyrir utan 3ja stiga línuna en þaðan settu þeir niður 11 af 24 skotum sínum. Þegar staðan var orðin 62-50 fyrir Snæfell þá hrukku Stólarnir heldur betur í gírinn og þegar þriðja leikhluta lauk höfðu þeir náð að jafna leikinn, 73-73.

Fjórði leikhluti var æsispennandi. Tindastóll náði yfirhöndinni og náði mest sjö stiga forystu en fengu þá dæmda á sig óíþróttamannslega villu þegar ekkert var að gerast i sókn Snæfellinga og náðu gestirnir því að minnka muninn í þrjú stig í sömu sókninni. Síðustu fimm mínútur leiksins gekk báðum liðum illa að nýta sóknir sínar en gestunum tókst þó betur til en heimamönnum. Þeir náðu að komast yfir þegar um tvær mínútur voru eftir, náðu 3ja stiga forskoti en Stólarnir klóruðu í bakkann og minnkuðu muninn í 92-91 en aftur skoruðu Snæfellingar og staðan 94-91 þegar skammt var eftir af leiknum.

Helgi Rafn fékk vítaskot, klikkaði á því fyrra og svo viljandi á því seinna og eins og efni stóðu til þá náðu Stólarnir frákastinu og brotið var á Kita. Hann setti fyrra skotið niður og staðan 94-92. Um 5 sekúndur voru eftir á klukkunni og nokkuð ljóst að til að Stólarnir ættu einhvern séns á að jafna eða sigra varð hann að klikka á seinna skotinu og vonast til þess að Stólarnir næðu frákastinu og skoruðu. Þetta gekk nánast eftir, því eftir baráttu um frákastið eftir að boltinn skoppaði af hringnum stóð Kita skyndilega aleinn undir körfunni með boltann í höndunum en þegar hann ætlaði að leggja boltann í körfuna missti hann boltann út af. Vonbrigðin voru gríðarleg - fimmta tapið staðreynd. Lokatölur 92-94 fyrir Snæfell.

Engu að síður geta Tindastólsmenn tekið margt jákvætt út úr leiknum. Baráttan var til fyrirmyndar og sóknarleikurinn gekk vel í heildina. Rikki var sjóðheitur og Kita átti fínan leik og þá var Rivers seigur. Þá má geta þess að dómarar leiksins, Einar Skarp og Kristinn Óskars, dæmdu vel.

Nú er bara að stíga upp og ná sigurleik. Áfram Tindastóll!

Fleiri fréttir