Íslandsmeistarinn í Vaxtarrækt lagði allt í undirbúninginn

Gunnar Stefán og Sigurkarl Aðalsteinsson, sem varð í öðru sæti, voru vel sáttir báðir tveir eftir átökin. Á þeim félögum er 33 ára aldursmunur, Gunnar 27 ára og Sigurkarl 60 ára. Myndir: Fitness.is/ Gyða Henningsdóttir (www.gyda.is)
Gunnar Stefán og Sigurkarl Aðalsteinsson, sem varð í öðru sæti, voru vel sáttir báðir tveir eftir átökin. Á þeim félögum er 33 ára aldursmunur, Gunnar 27 ára og Sigurkarl 60 ára. Myndir: Fitness.is/ Gyða Henningsdóttir (www.gyda.is)

Íslandsmeistarinn í vaxtarrækt, Gunnar Stefán Pétursson frá Sauðárkróki, hampaði titlinum á skírdag eftir harða keppni frá Sigurkarli Aðalsteinssyni. Leiðin að titlinum er löng og ströng, stífar æfingar og niðurskurður á fitu tekur um hálft ár.

Gunnar Stefán hefur stundað vaxtarrækt og lyftingar í um átta ár og segir hann undirbúning fyrir slíka keppni standa yfir allt árið, enda sé sportið hans lífstíll sem hann elski. Aðspurður segir hann Íslandsmeistaratitilinn hafa komið sér á óvart. „En ég neita því ekki að það var ljúft að vinna og klára þetta eftir alla vinnuna og árin sem ég hef lagt í þetta. Ég tók annað sætið í Vaxtarrækt í fyrra, á móti Helga Bjarnasyni, og vissi hvað ég þurfti að bæta til að klára þetta núna. Ég er enn rétt að byrja og held áfram að bæta mig og bæta á næstu árum. Ég stoppa ekki núna og mun koma meira frá mér í þessari grein bæði á innlendri og erlendri grundu,“ segir Íslandsmeistarinn.

Gunnar Stefán starfar sem einkaþjálfari í World Class, og er einnig styrktarþjálfari nokkurra íþróttarmanna og segist alltaf vera að skoða sig um að vinna fyrir einhver íþróttarfélög. Hann er einnig næringarþjálfari, fjarþjálfari (Online training) og keppnisundirbúningsþjálfari og kennir einnig á námskeiðum í World Class, með hóptíma og heldur fyrirlestra.

Gunnar Stefán hampar verðlaunagripnum sem hann fékk að launum í vaxtarræktinni. Mynd: Fitness.is/ Gyða Henningsdóttir (www.gyda.is)

Gunnar Stefán hampar verðlaunagripnum sem hann fékk að launum í vaxtarræktinni. 

„Þetta er full vinna hjá mér, ef vinnu má kalla. Áhugamálið mitt, sem ég elska, er að hjálpa fólki að breyta um lífstíl og legg ég mikið upp úr lífstíl. Sportið sem ég er í er ekkert nema lífstíll en ekki ákjósanlegur hjá mörgum. Ég keppi í þessu mér til gamans en er líka að sprikla áfram í fótbolta og í þrautagreinum og brautum. Ég er mikill íþróttarmaður og vil ég geta gert allt. Hlaupið, lyft og leikið mér í öðrum íþróttum.“

Undirbúningsferlið er langt og strangt og sem dæmi tekur niðurskurður hjá honum oftast um 20-30 vikur. „Ég lagði allt í þetta ferli, nudd tvisvar til þrisvar í viku, kírópraktík, æfingar einu sinni til tvisvar á dag, sex til sjö daga í viku, pósur, borða og pæla í allri næringu en margir telja keppendur borða lítið. Það er rangt og er fólk oft hissa á því hversu mikið maður er að næra sig. Ég er eflaust að borða á við fjögurra til fimm manna fjölskyldu svo þetta er ekkert beint ódýrt en alveg þess virði þar sem ég hugsa mjög vel um líkamann,“ segir Gunnar Stefán.

Ef einhver er ekki að kveikja hverra manna pilturinn er þá eru foreldrar hans Regína Gunnarsdóttir og Pétur Ingi Björnsson á Sauðárkróki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir