Íslandsmót í hrútadómum á laugardaginn

Mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetrinu á Ströndum í sumar, margvíslegar uppákomur og viðburðir. Framundan er stærsta samkoma ársins, Íslandsmeistaramót í hrútadómum, sem verður haldið næstkomandi laugardag, 16. ágúst og hefst kl. 14:00 í Sævangi við Steingrímsfjörð.

Jafnan er góð þátttaka í hrútadómunum, bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra og hræddra hrútaþuklara. Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn.

Á Sauðfjársetrinu eru nú uppi þrjár sérsýningar, fyrir utan fastasýningu safnsins sem ber yfirskriftina Sauðfé í sögu þjóðar. Í kaffistofunni er sýningin Allt á kafi! þar sem sagt er frá snjóaveturinn 1995 á Ströndum og á listasviðinu er sýning um álagabletti á Ströndum. Ætlunin er að opna nýja tímabundna sögusýningu á hrútadómunum, þar sem sagt verður frá starfi héraðsráðunauta og verður Brynjólfur Sæmundsson  sem var ráðunautur á Ströndum í nærri 40 ár í forgrunni á þeirri sýningu.

Í Sauðfjársetrinu er rekið kaffihúsið Kaffi Kind þar er hægt að gæða sér á ís frá Erpsstöðum, súpu, kökum og gæða kaffi, einnig er þar lítil handverksbúð með fallegum munum sem eru flestir unnir af heimamönnum á Ströndum.

Safnið verður opið alla daga milli 10-18 út ágústmánuð og um helgar í september. /Fréttatilk.

Fleiri fréttir