Íslenska gæðingakeppnin – þróunin áfram :: Kristinn Hugason skrifar

Gæðingadómnefnd landsmótsins á Hólum 1966 að störfum. Frá vinstri talið: Steinbjörn Jónsson, Steinþór Gestsson og Haraldur Sveinsson. Ljm. óþekktur.
Gæðingadómnefnd landsmótsins á Hólum 1966 að störfum. Frá vinstri talið: Steinbjörn Jónsson, Steinþór Gestsson og Haraldur Sveinsson. Ljm. óþekktur.

 Kæru lesendur, nú verður haldið áfram þar sem frá var horfið varðandi tilurð og þróun íslensku gæðingakeppninnar. Eins og áður er fram komið er talið að fyrsta keppnin hafi farið fram árið 1944, þær hafi svo nokkuð fest í sessi. Á fyrsta landsmótinu 1950 fór gæðingakeppni fram, þar var byggt á gömlu aðferðinni við að dæma kynbótahross með dómnefndarfyrirkomulagi og ekki stuðst við eiginlegan dómkvarða en í kynbótadómunum á mótinu var tekinn upp glænýr tölulegur dómkvarði.

Gæðingadómnefnd mótsins var sannkallað öldungaráð og staðan tekin í samanburði við langa fortíð. Niðurstaðan var sú að mótið prýddi margur snjall gæðingurinn en enginn þeirra væri þó „fullþjálfaður snillingur á gamla vísu“, eins og það var orðað. Á næstu tveimur landsmótum, 1954 og ´58, fór keppnin fram með líku sniði; hestamannafélögin sjálf voru ábyrg fyrir vali sinna þátttakenda, höfðu úr vissum fjölda sæta á mótinu að moða eins og á fyrsta mótinu og einvörðungu geltir reiðhestar höfðu þátttökurétt eins og fyrr, dómnefnd dæmdi áfram en studdist nú við hinn nýja dómstiga kynbótahrossa.

Í raun hefur sú grunnhugsun gæðingakeppninnar, að hestamannafélögin sjálf séu ábyrg fyrir vali sinna þátttakenda, haldist allar götur síðan og jafnframt fest í sessi hvað yngri flokka afsprengi gæðingakeppninnar varðar, þ.e. í flokkum, barna, unglinga og ungmenna. Flest annað í sambandi við þetta hefur hins vegar tekið stórfelldum breytingum og verður sú saga nú rakin áfram.

Þróun mála næstu árin
Á landsmótinu 1962 hafði hvert hestamannafélag heimild til að senda þrjá hesta til góðhestakeppninnar nema Fákur sem mátti senda sjö hesta. Að þessu sinni sendu 18 félög samtals 55 hesta. Dómnefnd starfaði og dæmdi samkvæmt dómstiga sem samþykktur var á ársþingi LH sem fram fór 11. til 12. nóvember 1961, er þetta fyrsti eiginlegi dómstigi fyrir íslensku gæðingakeppnina. Hann var svohljóðandi:

Dómsatriði                 Einkunn                      Margfeldi                   Stig
Tölt                             1-10                            10                               10-100
Brokk                         1-10                              6                                   6-60
Stökk                          1-10                              8                                   8-80
Skeið                          1-10                            12                               12-120
Geðslag                      1-10                            12                               12-120
Vilji                            1-10                            12                               12-120
Höfuð, háls, yfirsv.    1-10                            15                               15-150
Fætur                          1-10                            10                               10-100
Fegurð í reið               1-10                            15                               15-150

Kvarðinn er þannig uppsettur, eins og skynsamlegt var fyrir tíma allra vasareikna, að summa margfelda er 100 sem þýðir að aðaleinkunn varð til með að deila í stigasummuna með 100, sjá nánar í Hestinum okkar 3. tbl. 1962.

Dómnefndinni bar svo að raða sjö stigahæstu hestunum og birta aðaleinkunnir þeirra og semja umsögn um þá og aðra hesta sem mættu til keppninnar. Í dómnefndinni sátu hinir kunnu hestamenn Björn Jónsson á Akureyri (1910-1983) og Matthías Matthíasson í Reykjavík (1907-1969) sem báðir hafa verið kynntir til sögunnar áður í þessum greinaflokki. Auk þeirra skipaði nefndina Guðmundur Pétursson (1911-2000), þá búsettur á Akranesi, en er jafnan kenndur við Gullberastaði í Lundareykjadal, starfaði lengi sem ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Borgarfjarðar og þekktur af fjárrækt sinni og hrossarækt. Sigurvegari gæðingakeppninnar var hinn kunni Stjarni, Boga Eggertssonar í Reykjavík, sem fyrr hefur komið við sögu í greinaflokknum.

Á landsmótinu 1966 var dæmt eftir sama dómskala áfram, hestamannafélögunum hafði nú fjölgað og var brugðist við því með að fækka þátttökuhestum frá félögunum hverju fyrir sig. Í dómnefnd mótsins sátu eftirtaldir: Steinþór Gestson á Hæli (1913-2005), Haraldur Sveinsson í Reykjavík (1925-2019) og Steinbjörn Jónsson á Hafsteinsstöðum (1926-1975). Steinþór var mikill og merkur forystumaður hestamanna, alþingsmaður lengi og stjórnarmaður í Búnaðarfélagi Íslands, hann hefur áður mjög komið við sögu í greinaflokknum. Haraldur Sveinsson var einn hinna kunnu Völundarbræðra sem svo voru kallaðir eftir Timburversluninni Völundi sem faðir þeirra stofnsetti og rak og þeir bræður síðan.

Blær frá Langholtskoti, sigurvegari gæðingakeppni landsmótanna 1966 og 1970, knapi er eigandi hestsins, Hermann Sigurðsson í Langholtskoti. Mynd úr safni bókarinnar Ísl. hesturinn, útg. 2004 Mál og menning og SÍH. Ljm. Sig. Sigm.

Kunnastur er hann þó sem framkvæmdastjóri Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Utan starfsins átti hestamennskan allan hug Haraldar, hann sat og lengi í stjórn bæði í Fáki og hjá LH. Steinbjörn á Hafsteinsstöðum var afar virtur og landskunnur hestamaður sem og frábær söngmaður og kórfélagi í Heimi. Á þessu móti var gæðingabikar LH veittur í fyrsta sinn og var skipulagsskrá hans birt í mótsskránni, sjá bls. 88. Bikarinn gaf hinn einarði baráttumaður fyrir íþróttum íslenska hestsins, Björn Gunnlaugsson, en um hann var fjallað í síðustu grein. Sigurvegari keppninnar var Blær frá Langholtskoti, knapi og eigandi Hermann Sigurðsson.

Á landsmótinu 1970 bar mjög til tíðinda; hestamannafélögunum hafði nú enn fjölgað nokkuð og tekið var upp það fyrirkomulag að hverju félagi gæfist kostur á að senda hesta í samræmi við félagatölu sína, einn hest fyrir hverja fimmtíu félaga og byrjaða fimmtíu. Þátttökuhestum fjölgaði þannig mjög, auk þess sem nú var í fyrsta sinn keppt í tveimur flokkum: Flokki alhliða gæðinga (A-flokki) og í flokki klárhesta með tölti (B-flokki). Ítarleg reglugerð um gæðingakeppnina var birt, sjá bls. 83 til 86 í mótsskránni, hvað dómkvarðann sjálfan varðaði var hann þó óbreyttur (frá 1961).

Við dóma í B-flokknum var einkunnin 5 gefin fyrir skeið og voru klárhestarnir því lægri en alhliðahestarnir hvað þessu nam að öðrum einkunnum jöfnum þ.e.a.s. Á þessu móti var Háfeta-bikarinn veittur í fyrsta sinn og eins og segir í skipulagsskránni um hann sem birt er á bls. 88 í mótsskránni: „Bikarinn er heiðursverðlaun, veitt þeim klárhesti með tölti, sem dæmist beztur vera á landsmóti“. Gefandi bikarsins var landbúnaðarráðuneytið.

Nafnið Háfeta bikar er til heiðurs gæðingnum Háfeta Daníels Daníelssonar (1866-1937) ljósmyndara, dyravarðar í stjórnarráðinu o.fl. Daníel var mikill hesta- og ævintýramaður og fyrsti formaður Fáks. Hann reit endurminningar sínar og kallaði þær Í áföngum og komu út hjá Steindórsprenti í Reykjavík 1937.

Dómnefnd alhliða gæðinga skipuðu: Haraldur Sveinsson í Reykjavík og Steinbjörn Jónsson á Hafsteinsstöðum eins og ´66 en nýr var Björn Jóhannesson (1928-2011) bóndi og hestamaður á Laugavöllum en klárhestana með tölti dæmdu: Guðmundur Óli Ólafsson (1927-2007) sóknarprestur í Skálholti, framámaður í röðum hestamanna, m.a. ritstjóri Hestsins okkar um árabil, Aðalsteinn Steinþórsson þá á Hæli (1943- ) og Þrúðmar Sigurðsson (1927-2019) framámaður Hornfirðinga í sveitarstjórnarmálefnum, hestamennsku og hrossarækt. Í áður tilvitnaðri reglugerð var fyrsti vísir að kröfu til dómnefndarmanna um sjálfstæð vinnubrögð, en áskilið var að hver fyrir sig hefði sérdómblað og gæfi einkunn sem síðan yrðu samræmdar.

Blær frá Langholti sigraði nú alhliða gæðingana í annað sinn en fyrsti sigurvegari í flokki klárhesta með tölti og vinnandi Háfeta bikarsins var Gráni frá Auðsstöðum, knapi og eigandi Jóhann Friðriksson (í Kápunni).

Kristinn Hugason

Áður birst í 18. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir