Íþróttamaður USVH kjörinn í kvöld

Íþróttamaður ársins innan vébanda USVH árið 2010 verður kjörinn í íþróttamiðstöðinni á Hvammstanga klukkan sex í kvöld. Í dag. Tilnefnd eru; Fríða Marý Halldórsdóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Helga Margrét Þorsteinsdóttir, Ísólfur L. Þórisson, Ólafur Einar Skúlason og Tryggvi Björnsson.

Hér segir svo nánar frá helstu afrekum þeirra sem tilnefndir eru:

Fríða Marý Halldórsdóttir fyrir hestaíþróttir.

Helsti árangur hennar árið 2010:

- Í Húnvetnsku liðakeppninni komst hún í b-úrslit í fjórgangi, endaði í 6. sæti í Smala og komst í b-úrslit í tölvi unglinga og endaði í 9. sæti.

- Á Grunnskólamótunum endaði hún í 1. sæti í skeiði á öllum þrem mótunum á Hvammstanga, Blönduósi og á Sauðárkróki á mjög góðum tímum.

- Á Unglingalandsmóti UMFÍ sigraði Fríða bæði tölt og fjórgang í unglingaflokki.

- Á Íslandsmóti barna, unglinga og ungmenna komst Fríða í A-úrslit í tölti eftir að hafa sigrað B-úrslit og endaði í 6.-7. sæti í unglingaflokki. Í fjórgangi komst hún í B-úrslit og endaði í 7. sæti.

- Á Íþróttamóti Þyts vann Fríða bæði tölt og fjórgang unglinga

Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir fyrir körfubolta.

Helsti árangur hennar árið 2010:

- Guðrún spilar með meistaraflokki KR, en liðið hefur verið í úrvalsdeildinni síðastliðin fjögur ár.

- Hún hefur verið að standa sig mjög vel með liðinu og er frábært varnarmaður og oftar en ekki með þeim stigahæstu í liðinu.

- Í febrúar varð Guðrún Gróa bikarmeistari í körfubolta með KR.

- Guðrún varð íslandsmeistari í körfubolta með liði sínu KR í apríl.

- Í lok leiktíðarinnar var hún valin besti varnarmaðurinn í Iceland Express deild kvenna annað árið í röð. Sýnir þetta hve gífurlega sterk körfuknattleikskona hún er.

Helga Margrét Þorsteinsdóttir fyrir frjálsar íþróttir.

Helsti árangur hennar árið 2010:

- Í júlí náði Helga Margrét þeim frábæra árangri að vinna brons í sjöþraut á HM 19 ára og yngri í Kanada. Hún hlaut alls 5.706 stig, en besti árangur hennar í þrautinni er 5.878 stig og var hún því aðeisn frá sínu besta þarna.

- Í febrúar keppti Helga í Bikarkeppni FRÍ innanhúss. Þar hljóp hún 60m grindarhlaup á tímanum 0,8,79. Einnig stökk hún 1,70m í hástökki og sigraði báðar þessar greinar.

- Í lok júlí var Helga að keppa í sjöþraut á EM í Barcelona á Spáni. Hún náði sér ekki á strik þar og hætti keppni eftir kúluvarpið. En þarna var mjög stutt liðið frá HM í Kanada þar sem hún stóð sig svo vel.

- Helga Margrét er í landsliðshóp Íslands í frjálsum íþróttum 2010-2011.

- Helga Margrét er þrátt fyrir ungan aldur orðin ein besta sjöþrautarkona heims. Sænski þjálfarinn Agne Bergvall, sem meðal annars þjálfar fyrrverandi Ólympíumeistarann í sjöþraut, Carolinu Klüft, er nú orðin þjálfari Helgu og fer hún til Svíþjóðar á æfingar öðru hvoru.

Ísólfur L. Þórisson fyrir hestaíþróttir.

Helsti árangur hans árið 2010:

- Í Meistaradeild Norðurlands endaði hann í 5. sæti í fjórgangi, í 7.-8. sæti í fimmgangi og sigraði töltið.

- Ísólfur endaði í 7. sæti í stigasöfnunarkeppninni en Meistaradeildin er stigasöfnunarkeppni á milli móta. Með þessum árangri vann hann sér inn rétt til að keppa á næsta ári án þess að þurfa að fara í úrtöku.

- Á Íþróttamóti Þyts endaði Ísólfur í 5. sæti í gæðingaskeiði, 4. sæti í tölti og 2. sæti í fimmgangi.

- Ísólfur sýndi einnig 8 kynbótahross á árinu og fóru 4 af þeim í 1. verðlaun.

Ólafur Einar Skúlason fyrir frjálsar íþróttir.

Helsti árangur hans árið 2010:

- Í lok febrúar keppti Ólafur Einar í Bikarkeppni FRÍ innanhúss í Laugardalshöll. Þar stökk hann 1,96m í hástökki og sigraði. Hann var þarna að bæta sinn besta árangur um 1 cm.

- Þann 19. júní keppti hann í Evrópubikarkeppni landsliða í frjálsum, 2. deild, sem haldin var í Marsa. Þar stökk hann 1,85m í hástökki og varð í 10.-11. sæti.

- Um miðjan ágúst tók hann svo þátt í Bikarkeppni FRÍ utanhúss sem haldin var á Sauðárkróki. Þar stökk hann 1,80m í hástökki og varð í fjórða sæti.

- Í byrjun nóvember valdi íþrótta- og afreksnefnd Frjálsíþróttasambands Íslands Ólaf Einar í landsliðshópinn fyrir keppnistímabilið 2010-2011.

Tryggvi Björnsson fyrir hestaíþróttir.

Helsti árangur hans árið 2010:

- Í Húnvetnsku liðakeppninni varð hann í 1. sæti í fjórgangi, 2. sæti í tölti og í 4. sæti í fimmgangi. Tryggvi vann einstaklingskeppnina með 35 stig.

- Meistaradeild Norðurlands: Varð í 2. sæti í fljúgandi skeiði. Tryggvi endaði í 11. sæti í stigasöfnunarkeppninni en Meistaradeildin er stigasöfnunarkeppni milli móta. Með þessum árangri vann hann sér inn rétt til að keppa á næsta ári án þess að þurfa að fara í úrtöku.

- Skagfirska mótaröðin: 4. sæti í fjórgangi, 3. sæti í skeiði.

- Ís-landsmót: 1. sæti í B-flokki og í 3. sæti í B-flokki og 4. sæti í tölti.

- Opið ístölt Neista: 1. sæti í tölti. Nýárstölt Léttis: 5. sæti í tölti.

- Á Íþróttamóti Þyts endaði Tryggvi í 1. sæti í fimmgangi, 1. sæti í gæðingaskeiði og í 3. sæti í tölti.

- Á árinu sýndi Tryggvi einnig 39 kynbótahross og fóru 12 af þeim í 1. verðlaun.

Fleiri fréttir