Jarðsig við Almenninga fer vaxandi
Eins sagt er frá á forsíðu Morgunblaðsins í dag telja kunnugir að jarðsig við Almenninga fari vaxandi. Mikil úrkoma, óvenjumikill snjór í fjöllum og sjávargangur hefur valdið meira jarðsigi, að því er Morgunblaðið hefur eftir Sveini Zophoníassyni, verkstjóra hjá Bás vélaleigu og steypustöð sem hefur unnið að viðhaldi á veginum fyrir Vegagerðina.
Þar segir Sveinn að starfsmenn fyrirtækisins hafi verið annað slagið á veginum síðan í apríl og vegurinn sígi ört, ekki sé um venjulegt ástand að ræða. Í sama streng tekur Jóhannes Ríkharðsson bóndi á Brúnastöðum í Fljótum. Hann telur að hreyfingin á veginum fari vaxandi með árunum og sé á fleiri stöðum. Vegurinn sé sums staðar orðinn illkeyranlegur.
Þegar blaðamaður Feykis átti leið um veginn seint á föstudagskvöld var ástandið vægast sagt slæmt, enda mikið vatnsveður undanfarið. Samkvæmt Morgunblaðinu í dag stóð til að Vegagerðin færi í frekari viðhaldsaðgerðir í dag, hefla á veginn og rykbinda.