Kærkominn Stólastúlknasigur á liði Þórs/KA

Dom átti ágætan leik með liði Tindastóls. MYND: ÓAB
Dom átti ágætan leik með liði Tindastóls. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls og Þórs/KA mættust á Sauðárkróksvelli í gær í skítakulda en leikurinn var liður í Kjarnafæðismótinu. Gestirnir voru sterkari aðilinn í leiknum og þær gerðu eina mark leiksins snemma í fyrri hálfleik en sem betur fer fyrir heimastúlkur þá var um sjálfsmark að ræða. Lið Tindastóls vann því leikinn 1-0 og ekki ósennilegt að um hafi verið að ræða fyrsta sigurleik Stólastúlkna gegn Þór/KA.

Það var norðangola á Króknum þegar leikurinn fór fram í gærkvöldi og hiti rétt yfir frostmarki. Bæði lið lögðu mikla vinnu í leikinn og það var hlaupið fyrir allan peninginn. Markið kom eftir um stundarfjórðung en þá átti lið Tindastóls ágæta sókn, Mur reyndi sendingu fyrir markið á Hugrúnu en Arna Kristinsdóttir setti boltann í eigið mark.

Lið gestanna reyndi hvað það gat til að jafna leikinn í síðari hálfleik og var lengstum með boltann. Vörn Tindastóls gaf hins vegar fá færi á sér, gerði sárafá mistök, og Amber hirti allt það sem inn á teiginn kom þó á stundum á lokakaflanum hafi lukkan verið í liði Stólastúlkna. Nokkuð var um meiðsli á lokamínútunum og voru nokkrir sterkir leikmenn Tindastóls komnir út af undir lokin en þrátt fyrir að ungar stúlkur kæmu inn í liðið þá tókst gestunum ekki að nýta sér það.

Sigurinn ætti að gefa liðinu sjálfstraust fyrir komandi átök en Pepsi Max deildin fer af stað eftir viku. Lið Tindastóls glímir við meiðsli en Jackie tók ekki þátt í leiknum gær og sömuleiðis voru þær Aldís María og Guðrún Jenný fjarri góðu gamni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir