Kært til fortíðar, kulda og myrkurs

Á liðnum áratugum hafa réttarbætur fært almenningi og öðrum þeim er andspænis stjórnvöldum standa,  aukinn rétt. Það verður að teljast trúlegt að stjórnmálamenn hafi á sínum tíma álitið að farið yrði gætilega með þennan rétt. Á síðustu árum hefur æ betur komið í ljós hvernig þessi aukni réttur hefur verið misnotaður eða mögulegar afleiðingar þessarar réttarbótar hafa ekki verið hugsaðar til enda. Er nú svo komið að mikilvæg innviðaverkefni sem tryggja eiga jafnræði meðal þegna landsins hafa tafist mjög og  sum um áratugaskeið. Einstaklingar og félagasamtök hafa í sumum tilfellum bundist samtökum um kærumál í skipulagsmálum gegn ýmsum framkvæmdum. Sérkennilegt er að oftar en ekki koma þessar athugasemdir og kærur mjög seint fram í skipulagsferlinu. Steininn tekur þó úr þegar öll kærumál virðast afgreidd,  er gripið í hálmstrá sem einungis er ætlað að tefja framkvæmdir enn frekar.

Kærumálin skáldlegu
Rétt er að nefna dæmi af þessum toga frá fyrri árum. 
Margir muna fuglinn rauðbrysting,  sem átti að hverfa við þverun Gilsfjarðar. Tilvera hans var notuð til þess að tefja framkvæmdir. Um síðir kom í ljós að hann, eins og aðrir fuglar, er fleygur og færði sig bara til í Gilsfirðinum þegar hann staldrar þar við.

Við þverun Mjóafjarðar var það meint varp gulandar sem tilkynnt var til þess að tefja framkvæmdir. Það var rannsakað gaumgæfilega og gulandar hefur hvorki fyrr né síðar orðið vart á þessu svæði.

Nýrri mál eru þekktari. Undirbúningur að virkjun Hvalár er nú á lokastigi enda hefur framkvæmdin verði án athugasemda í nýtingarflokki þeirra virkjanakosta er metnir hafa verið. Þegar verkefnið var að komast á framkvæmdastig hófst skæðadrífa kærumála. Einna mesta athygli fjölmiðla vakti síðastliðið sumar þegar vitnaðist að trjáhola hefði fundist á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Af fréttaflutningi mátti ráða að um einstakt náttúrfyrirbrigði væri að ræða,  sem varla væri að finna annars staðar. Við einfalda og fljótlega könnun á internetinu mátti þó flestum vera ljóst að trjáholur sem þessar finnast víða á Íslandi.

Samhliða virkjun Hvalár var ráðist í löngu tímabærar lagfæringar á gömlum vegum á Ströndum. Hófst þá sami leikurinn. Ein kæran skar sig þó úr. Þar kom tjald við sögu. Um nokkurt skeið hefur staðið til að reisa mongólskt tjald í Árneshreppi með það að markmiði að þar færi fram ýmis konar menningarstarfsemi. Óneitanlega spennandi og skemmtileg hugmynd. Verkefnið hlaut enda veglegan fjárhagslegan stuðning frá opinberum aðilum m.a. úr sjóðum sem ætlað er að styrkja brothættar byggðir líkt og Árneshreppur telst vera. Ekki var tjaldið fyrr komið upp en sú röksemd var notuð í kæru gegn vegabótunum að framkvæmdirnar trufluðu fyrirhugaða menningarstarfsemi í tjaldinu!

Líkt og alþjóð veit hefur gerð nýs vegar um Teigsskóg tafist í tvo áratugi vegna kærumála. Hinum nýja vegi er ætlað að koma í stað mjög hættulegs vegar þar sem ráðlagður hámarkshraði er á löngum köflum einungis 30 km/klst. Að auki er hinum nýja vegi ætlað að rjúfa einangrun sunnanverðra Vestfjarða. Eftir tveggja  áratuga kærumál hafa lok málsins talist í sjónmáli eftir útgáfu framkvæmdaleyfis.  Einn gamalkunnur hængur getur þó verið þar á. Síðastliðið sumar tilkynnti landeigandi að í fyrirhuguðu vegstæði hefði fundist jurtin ferlaufungur. Jurtin sú er talin sjaldgæf og því friðuð en finnst þó víða á Suðvesturlandi, Vestfjörðum og Þingeyjarsýslu. Við rannsóknir sem fram hafa farið á undanförnum árum hefur ferlaufungur vissulega fundist í og við Teigsskóg og því getur hann vart talist í hættu.

Landvernd ríkisins?
Líkt og upptalningin hér að framan ber með sér hafa mörg lagatæknileg ljón orðið á vegi þeirra er viljað hafa bæta innviði. Innviði sem þegar eru til staðar hjá stærstum hluta landsmanna. Innviði sem hafa risið án teljandi athugasemda þeirra er við þá búa og ekki heldur þeirra er annars staðar búa.

Þegar rýnt er í helstu kærumál á landinu vegna uppbyggingu innviða kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós. Landvernd „eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu“ segir orðrétt á heimasíðu samtakanna. Ljóst má vera að þessi stefna samtakanna hefur borið ríkulegan ávöxt víða t.d. á suðvesturhorninu enda lífsgæði þar með þeim bestu í heiminum. Þegar kemur að lífsgæðum í hinum dreifðari byggðum virðist Landvernd eingöngu standa vörð um vernd lands eins og nafn samtakanna ber með sér.

Rekstur og framganga Landverndar er að stórum hluta fjármögnuð af opinberum aðilum. Á undanförnum árum hefur óbilgjörn framganga Landverndar stöðvað margar löngu tímabærar framkvæmdir opinberra aðila í innviðum,  einkum á landsbyggðinni. Það er óneitanlega sérkennileg staða að vinstri hönd ríkisvaldsins veiti fjármuni til þess að stöðva framkvæmdir sem hægri hönd ríkisvaldsins telur bráðnauðsynlegar og tryggja eiga jafnræði þegnanna. Er þetta nú gáfuleg staða?

Fólk fortíðaþrárinnar
Eins og áður hefur komið fram hafa fjölmörg kærumál borist frá einstaklingum vegna fyrirhugaðra innviðaframkvæmda. Þegar rýnt er betur í kærurnar kemur í ljós að sömu nöfnin koma fyrir aftur og aftur innan samtaka og utan og ekki einungis í sama landshlutanum. Flestir eru kærendurnir búsettir á suðvesturhorninu eða erlendis. Þeir berjast gegn því að íbúar á stórum landsvæðum öðlist sambærileg lífsgæði og þeir sjálfir búa við í sinni heimabyggð. Þótt kærurnar séu fjölmargar eru kærendurnir ekki svo margir. Raunar ekki fleiri en svo að segja má að ekki stærri hópur en 10-15 manns sem t.d.  heldur allri innviðauppbyggingu á Vestfjörðum í gíslingu og einnig nauðsynlegum innviðaframkvæmdum í öðrum landshlutum.

Er nú ekki mál að linni?
Með því sem kalla verður misnotkun málskotsréttar í umhverfis- og skipulagsmálum er nú svo komið að í landinu búa þrjár þjóðir. Sú sem nýtur innviða eins og best verður á kosið, önnur er bærilega stödd en sú þriðja býr við innviði sem eru langt frá því sem telst til viðundandi lífsgæða. Varla hefur það verið vilji löggjafans í upphafi. Eða hvað?

Fámennur hávær og fjölmiðlavænn hópur einstaklinga sem eftir atvikum stofna með sér hin ýmsu félög innanlands og utan berst gegn því að fjölmargir landsmenn öðlist löngu tímabær lífsgæði. Gildir þar einu hvort í hlut á vegagerð, orkuframleiðsla, raflínur eða uppbygging atvinnulífs.  Framganga þessa hóps er ekki vegna skilningsleysis á aðstæðum. Framgangan er einbeittur ásetningur svo þessir örfáu íbúar allsnægtanna geti upplifað fábreyttari lífshætti heima hjá öðrum,  þegar hentar. Varla hefur það verið vilji löggjafans. Eða hvað?

Túlkun og framkvæmd laga um skipulags- og umhverfismál hefur skapað ójöfnuð í landinu. Þar erum við fyrir löngu komin á endastöð. Það sjá flestir. Á næstunni kemur í ljós hvaða  stjórnmálamenn vilja standa með fólkinu og sambýli þess við náttúruna og tryggja að í landinu búi ein þjóð.   

Halldór Jónsson
Höfundur er búsettur á Akranesi.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir