Kaffi Kind á Ketilási - Myndir
Nýsköpunarvika er árlegur viðburður í Grunnskólanum austan Vatna í Skagafirði. Er hefðbundið skólastarf þá stokkað upp og lögð áhersla á nýsköpun hvers konar. Vikan endar svo með sýningu fyrir foreldra og aðra aðstandendur. Einnig stóðu 9.bekkingar fyrir kaffihúsi á Ketilási í Fljótum.
Hefð er fyrir því að kaffihús 9. bekkinga sé opið á þremur mismunandi stöðum eitt kvöld í senn yfir veturinn og að þessu sinni var það á Ketilási í Fljótum þar sem Kaffi Kind bauð upp á kjötsúpu, kaffidrykki og dýrindis eftirrétti.
Að sögn Jóhönnu Sveinbjargar Traustadóttur kennara sem hefur umsjón með verkefninu í vetur stóðu krakkarnir sig með mikilli prýði og sáu sjálf um allt sem kom að kaffihúsinu, hvort sem það var bakstur, matargerð, matseðlar, auglýsingar eða að strauja dúka. Síðar í vetur verður svo auglýst opnun kaffihúss á Hólum og Hofsósi.
Meðfylgjandi myndir tók Kristín S. Einarsdóttir, blaðamaður Feykis.