Kaffi og kökur í tilefni bókasafnsdagsins
Í tilefni bókasafnsdagsins verður boðið upp á kaffi og kökur í Héraðsbókasafninu A-Hún á Blönduósi miðvikudaginn 10. september milli klukkan 16:00-18:00. „Við hvetjum alla sem hafa áhuga til að heimsækja okkur þennan dag, fá sér kaffisopa og kynna sér starfsemi safnsins,“ segir á Húna.is.
Bókasafnsdagurinn er yfirleitt haldinn 8. september og tilgangur dagsins er að beina augum að mikilvægi bókasafnsins. Miðvikudagar eru vinsælir bókasafnsdagar hjá mörgum fjölskyldum hér á svæðinu og því var ákveðið að halda frekar upp á daginn þá.
„Einnig verður dreginn út vinningshafi sumarlestrarkeppninnar 2014, en vinningur er gjafakort til bókakaupa að verðmæti 5.000 kr. Hlökkum til að sjá sem flesta!,“ segir loks á vefnum.