Kallað eftir afsökunarbeiðni á Hólahátíð
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, vill meina að íslensk stjórnvöld eigi enn eftir að biðjast nægjanlega afsökunar á því sem gengið hafi á í íslensku þjóðfélagi undanfarin ár og áratugi eins og fram kom í ræðu hans á Hólahátíð um helgina.
Í hátíðarræðu sem hann hélt á Hólahátíð um helgina sagði hann að hann bíði enn eftir afsökunarbeiðni frá þeim sem báru ábyrgð á Landsbankanum síðustu árin og nefndi sérstaklega Kjartan Gunnarsson fyrrverandi bankaráðsmann Landsbankans sem hafði ritað grein í Morgunblaðið og fjármálaráðherranum mislíkaði. Oft hafa ræðumenn Hólahátíðar verið þungavigtarmenn í pólitíkinni og ræður þeirra vakið athygli. Því er oft beðið með eftirvæntingu hverjir eru fengnir til þess að halda ræðurnar og hvað á endanum kemur fram í þeim og olli Steingrímur ekki vonbrigðum fjölmiðla landsins.
Hólahátíð tókst með miklum ágætum og fjöldi fólks lagði leið sína heim að Hólum í blíðskaparveðri enda dagskráin fjölbreytt og metnaðarfull.