Kartöflugarður á Grenivík sendur á Sauðárkrók
Formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, Ómar Bragi Stefánsson hefur ekki ósjaldan bölvað knattspyrnuvellinum á Grenivík, sagt hann ósléttan og beinlínis hættulegan leikmönnum. Í grein sem hann skrifaði á sl. ári kallaði hann völlinn „kartöflugarð“ að sjálfsögðu við litla hrifningu heimamanna.
Eitthvað virtist þetta þó hreyfa við þeim og tekin var ákvörðun um að laga völlinn og gera hann að almennilegum velli sem er hið besta mál. Nú eru framkvæmdir hafnar við völlinn og verður m.a. lagt nýtt gras á hann allan.
Forráðamenn Magna á Grenivík eru miklir húmoristar og ákváðu því að minna Ómar á þessi ummæli hans. Þeir ristu góða grasþöku úr gamla vellinum og settu fimm kartöflur ofaná. Þetta settu þeir síðan á vörubretti, plöstuðu og sendu með flutningabíl heim til Ómars á Sauðárkrók.
Meðfylgjandi var líka eftirfarandi bréf:
„Heill og sæll Ómar.
Í tilefni af því að nú eru hafnar framkvæmdir a kartöflugarðinum, nei fyrirgefðu knattspyrnuvellinum á Grenivík, þá var það samdóma álit stjórnar Íþróttafélagsins Magna að færa þér að gjöf örlítið minningarbrot af okkar góða velli. Við teljum að þú hafir hjálpað og rekið okkur af stað í þessar framkvæmdir og ekki nema sjálfsagt að verðlauna þig fyrir það!
Að lokum óskum við ykkur til hamingju með að vera komnir upp í 2.deild og vonandi sjáumst við þar fljótlega!
F.h. stjórnar Magna, Þorsteinn Þormóðsson, Formaður Magna.
P.S. Þar sem þú hefur verið í lóðaframkvæmdum ætti þetta minningarbrot að nýtast þér vel!“
Ómar tók við þessari höfðinglegu gjöf glaður í bragði og kunni vel að meta þessa hugulsemi þeirra.
/Tindastóll.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.