Kaup Brunavarna Austur-Húnvetninga á nýju húsnæði samþykkt

Á fundi sveitarstjórnar Húnavatnshrepps sem haldinn var þriðjudaginn 28. janúar, samþykkti sveitarstjórn, fyrir sitt leyti, kaup Brunavarna Austur-Húnvetninga á fasteign að Efstubraut 2 á Blönduósi. Ennfremur samþykkti sveitarstjórnin að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Brunavarna Austur-Húnvetninga hjá Lánasjóði sveitarfélaga, að fjárhæð 70.000.000 kr. vegna kaupanna.

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps frestaði afgreiðslu þessa máls á síðasta sveitarstjórnarfundi og gerði þá athugasemd að samkvæmt núgildandi samþykktum væri stjórn Brunavarna ekki rétt kjörin samkvæmt samþykktum Byggðasamlags um Brunavarnir í Austur-Húnavatnssýslu. Við því hefur verið brugðist og í fundargerð sveitarstjórnar Húnavatnshrepps eru forsvarsmönnum Blönduósbæjar þökkuð skjót viðbrögð við ábendingum um vanhæfi stjórnarmanna Blönduósbæjar í Byggðasamlagi um Brunavarnir A.-Hún.

Í fundargerð segir ennfremur að sveitarstjórn Húnavatnshrepps telji nauðsynlegt að gera breytingar á samþykktum Byggðasamlags um Brunavarnir þar sem meðal annars verði kveðið á um framkvæmdastjóra. Engin ákvæði séu um framkvæmdastjóra í samþykktum þess og því röng stjórnsýsla að sveitarstjóri Blönduósbæjar titli sig sem framkvæmdastjóra Byggðasamlagsins og vinni fyrir það sem slíkur.

„Á meðan unnið er eftir óbreyttum samþykktum telur sveitarstjórn Húnavatnshrepps eðlilegt að sveitarstjóri Húnavatnshrepps sitji stjórnarfundi Brunavarna,“ segir í fundargerð.

Tengdar fréttir:

Brunavarnir Austur-Húnvetninga kaupa nýtt húsnæði,

Afgreiðslu frestað vegna kauptilboðs Brunavarna Austur-Húnvetninga,

Byggðaráð Blönduósbæjar skipar í stjórn Byggðasamlags um brunavarnir.

Fleiri fréttir