Keflvíkingar einfaldlega besta liðið

Keflvíkingar sækja að körfu Tindastóls. MYND: HJALTI ÁRNA
Keflvíkingar sækja að körfu Tindastóls. MYND: HJALTI ÁRNA

Nýkrýndir deildarmeistarar Keflavíkur komu í Síkið í gær í 20. umferð Dominos-deildarinnar. Tindastólsmenn hófu leik með ágætum, voru yfir eftir fyrsta fjórðung en svo kom það bersýnilega í ljós að Keflavík er með langbesta liðið í deildinni því þó svo að þeir væru án Harðar Axels þá var tilfinningin sú að þeir væru alltaf með leikinn í höndum sér. Þegar upp var staðið fóru þeir dökkbláu heim með stigin tvö. Lokatölur 71-86.

Tomsick kom Stólunum af stað með þristi og heimamenn voru sprækari fyrstu mínúturnar, komust í 12-6 en gestirnir brúuðu bilið og komust yfir 16-17 en Hannes Ingi átti síðasta orðið í fyrsta leikhluta, setti í sinn vanabundna þrist og Tindastóll leiddi því 19-17 að loknum fyrsta leikhluta. Keflvíkingar gerðu fyrstu sjö stigin í öðrum leikhluta en leikurinn var í járnum fram yfir fimmtándu mínútu en þá kom Anta Stólunum yfir í síðasta skiptið í leiknum með þristi, staðan 31-30. Gestirnir svöuðu með 1-10 kafla og í hálfleik var staðan 37-43.

Það var næsta víst að heimamenn urðu að koma sterkir inn í síðari hálfleikinn til að gefa sér möguleika á að ná í úrslit. Ekki fór það þannig því Keflvíkingar gerðu fyrstu sjö stigin og voru komnir með 13 stiga forskot eftir tveggja mínútna leik, 37-50. Þrátt fyrir nokkur áhlaup Tindastólsmanna var munurinn yfirleitt þetta 6-12 stig það sem eftir lifði leiks en staðan að loknum þriðja leikhluta var 56-67. Fátt markvert gerðist í fjórða leikhluta og heimamenn virtust ekki hafa mikla trú á verkefninu enda fór svo á endanum að Keflavík vann með 15 stiga mun.

Flenard Whitfield var atkvæðamestur í liði Tindastóls, gerði 18 stig og hirti átta fráköst. Stigahæstur var Nick Tomsick með 20 stig og hann átti sjö stoðsendingar, kappinn tapaði hins vegar boltanum átta sinnum. Stóru strákarnir Anta og Jaka gerðu samtals 16 stig í leiknum. Í raun var hittni liðanna álíka í opnum leik nema Keflavík leitaði meira inn í teig og tók talsvert fleiri skot þaðan. Stólarnir hirtu fleiri fráköst (41/35) en Stólarnir töpuðu boltanum 20 sinnum en gestirnir bara 10 sinnum.

Nú á fimmtudag fara strákarnir í Grindavík og spila þar við heimamenn sem hafa hysjað upp um sig í síðustu leikjum og eru nú í fimmta sæti með 20 stig á meðan að lið Tindastóls er í sjöunda sæti með 18 stig. Lokaumferðin er síðan næstkomandi mánudag og þá mætir lið Stjörnunnar í Síkið. Stólarnir eru ekki alveg öruggir með sæti í úrslitakeppninni en stjörnunar þurfa að setjast frekar óheppilega á himninum ef liðið á að missa af sætinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir