Kjötafurðastöð KS gerir samning við Rússneska verslunarkeðju

Kjötafurðastöð KS hefur unnið ötullega að því að kynna íslenska kjötframleiðslu utan landssteinanna og hefur sú vinna nú verið að skila sér með stórum samningum við stóra sölu- og dreifingaraðila, m.a. í Rússlandi, Spáni, Asíu og víðar. „Við erum að klára samninga núna við „high end“ verslunarkeðju sem kallast Azbuka Vkusa en henni svipar mikið til og hefur sömu gæðaviðmið og Whole foods verslunarkeðjan í Bandaríkjunum,“ segir Ágúst Andrésson framkvæmdarstjóri í viðtali í Feyki sem kom út á fimmtudag.

Þórólfur Sigurjónsson eldaði og kynnti íslenskar vörur.í íslenska sendiráðinu í Rússlandi.

Rússneska verslunarkeðjan Azbuka Vkusa rekur alls 68 verslanir í Moskvu og fimm í Pétursborg og segir Ágúst hana vera í örum vexti. „Við erum komin með fyrstu pöntunina sem við förum í um leið og við byrjum að slátra. Þetta verður ferskt kjöt sem við fljúgum þangað út og sjáum hver viðbrögðin verða. Þetta verður ekki mikið magn núna í haust en við höfum trú á þessu verkefni og að þetta muni byggjast upp í að verða eitthvað meira.“

Ágúst segir mikla eftirspurn vera eftir íslensku lambakjöti þar ytra og að hún sé sífellt að aukast. „Rússar hafa mjög mikinn áhuga fyrir Íslandi og íslenskum vörum, sem eiga gríðarlega mikil og góð tækifæri í þessum stóra markaði. Þetta er það sem við erum búin að vera vinna í og afla okkur þekkingar um og við erum klár í slaginn núna.“

Kjötafurðastöð KS hefur markvisst verið að bæta framleiðsluna og auka afköst með það að markmiði að ná fram betri nýtingu á afurðum sínum og aukinni framleiðslugetu. Feykir ræddi við Ágúst Andrésson framkvæmdastjóra afurðastöðvarinnar um þessi nýju tækifæri í nýjasta tölublaði Feykis, spennandi nýjungar sem fyrirtækið hefur verið að innleiða og sitt hvað annað sem efst er á baugi hjá fyrirtækinu um þessar mundir.

 

Fleiri fréttir