Kjúklingur í pestó og heitur grænmetisréttur
Í 12. tölublaði Feykis árið 2015 áttu matgæðingarnir Ingibjörg Jónsdóttir og Guðjón Þórarinn Loftsson á Syðsta Ósi í Miðfirði uppskriftir að kjúklingi í pestó og heitum grænmetisrétti.
„Fyrir valinu varð kjúklingaréttur sem Ingibjörg fékk á veitingastað í Húnaþingi fyrir nokkrum árum og hefur eldað hann reglulega síðan. Að auki heitur grænmetisréttur sem er kjörið að hafa með. Í hann er ekkert heilagt en það sem við gefum upp er þá hráefni sem við oftast notum," segja þau.
Kjúklingur í pestó
Uppskrift fyrir 4
200 g rautt pestó
400 g smurostur
4 kjúklingabringur
salt og pipar
Aðferð:
Skorið er inn í hálfa bringu. Smurosti er smurt inn í bringuna og pestó síðan sett yfir smurostinn. Bringunni er svo lokað. Salti og pipar stráð yfir bringurnar og þær settar í eldfast form. Gott er að setja álpappír yfir formið. Hitað í ofni í 40 mínútur við 180° hita.
Heitur grænmetisréttur
1 laukur
4 kartöflur
sæt kartafla
½ blómkálshaus
1 paprika
1 piparostur
½ poki rifinn ostur
½ peli rjómi
salt og pipar
Aðferð:
Allt hráefnið skorið niður og sett í eldfast mót, rjómi settur jafnt yfir (má einnig setja mjólk). Rifna ostinum stráð yfir. Gott að setja álpappír yfir formið. Hitað í ofni í um 40 mínútur við 180°C.
Með þessu er svo gott að hafa salat og hrísgrjón og er þá kominn fínasti kvöldverður.
Verði ykkur að góðu!