Komugjöld á heilsugæslu lækka

Þann 1. janúar sl. lækkuðu almenn komugjöld í heilsugæslu úr 1.200 krónum í 700 krónur og á sama tíma hækkaði gjaldskrá vegna annarrar heilbrigðisþjónustu um 2,5%. Bótafjárhæðir slysatrygginga almannatrygginga og dagpeningar sjúkratryggðra hækkuðu um 3,2%.

Frá þessu er greint á vef heilbrigðisráðuneytisins. Þar segir að lækkun almennra komugjalda í heilsugæslunni 1. janúar sl. nemi rúmum 40%. Er lækkunin bundin við komur fólks á dagvinnutíma á heilsugæslustöðinni þar sem það er skráð. Leiti fólk á aðra heilsugæslustöð er komugjaldið óbreytt, 1.200 krónur. Börn, öryrkjar og þeir sem eru 67 ára og eldri greiða ekki komugjöld í heilsugæslu. Áformað er að fella komugjöld í heilsugæslu á dagvinnutíma niður að fullu árið 2021 og er það liður í fleiri aðgerðum til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga, líkt og heilbrigðisráðherra kynnti í desember síðastliðnum. Þar á meðal eru auknar niðurgreiðslur sjúkratrygginga vegna tannlæknisþjónustu, lyfjakostnaðar og tiltekinna hjálpartækja, auk rýmri reglna um ferðakostnað sjúklinga.

Spornað við verðlagshækkunum í samræmi við lífskjarasamning
Hækkanir á gjaldskrám í heilbrigðisþjónustu 1. janúar voru lægri en nemur áætluðum launa- og verðlagsbreytingum samkvæmt fjárlögum eða 2,5%. Er það í samræmi við áherslur lífskjarasamnings stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að sporna við verðlagshækkunum og viðhalda stöðugleika.

Hækkun bóta nemur 3,5%
Hækkun varð 1. janúar síðastliðinn á bótafjárhæðum slysatrygginga almannatrygginga, sjúkradagpeningum, slysatryggingum o.fl. Hækkunin nemur 3,2% sem er í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga. Gjaldskrár heilbrigðisþjónustu hækkuðu hins vegar minna eða um 2,5% í samræmi við áherslur lífskjarasamnings stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um stöðugleika.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir