Konur hvattar til að panta tíma í krabbameinsskoðun

Nú hefur Leitarstöð Krabbameinsfélagsins breytt boðunum í skoðanir hjá sér og hefur  heilbrigðisstarfsfólk áhyggjur af því að það kunni að hafa áhrif á það að konur bóki sig í væntanlega hópskoðun sem fram fer á Sauðárkróki 11. - 14. mars nk. Krabbameinsfélagið hefur sett af stað tilraunaverkefni sem felst í því að bjóða þeim konum sem verða 23 ára og 40 ára á árinu 2019 gjaldfrjálsa skimun fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstakrabbameini á vegum Leitarstöðvarinnar.

Á heimasíðu Krabbameinsfélagsins segir að í desember ár hvert fái konur sem verða 23 ára á komandi ári kynningarbréf frá Leitarstöðinni þar sem kynnt er fyrir þeim að skipuleg skimun fyrir leghálskrabbameini hefjist við 23 ára aldur. Á Íslandi býðst konum á aldrinum 23 ára til 65 ára regluleg skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti.

Á sama tíma eru einnig send kynningarbréf til allra kvenna sem verða 40 ára á komandi ári og þeim kynnt fyrirkomulag skipulegrar skimunar fyrir brjóstakrabbameini sem hefst við 40 ára aldur. Konum á Íslandi býðst regluleg skimun fyrir brjóstakrabbameini með brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti til 69 ára aldurs.

Með reglubundinni skimun fyrir krabbameinum er hægt að koma í veg fyrir leghálskrabbamein og greina krabbamein í brjóstum á byrjunarstigi, segir á Krabb.is, svo mikilvægt er að panta tíma sem fyrst þegar boð koma frá Leitarstöðinni.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir