Körfuboltaskóli Norðurlands lýkur vetrarstarfinu

Vetrarstarfi Körfuboltaskóla Norðurlands lauk í gær með síðustu æfingu körfuboltaiðkenda á Blönduósi með heimsókn á Krókinn. Hafa þau æft reglulega í vetur en krakkar á Skagaströnd, Hvammstanga og Hólmavík hafa einnig notið leiðsagnar reyndra leikmanna undir forystu Helga Freys Margeirssonar sem kom skólanum á laggirnar. Að sögn Helga var æfingin skemmtilegur lokapunktur á fyrsta heila körfuboltatímabilinu á Blönduósi.

„Í framhaldi af miklum áhuga barna á svæðinu fyrir körfubolta og reglulegum æfingum og námskeiðum Körfuboltaskóla Norðurlands var ákveðið að stofna körfuknattleiksdeild Hvatar í vor, frábært skref fyrir körfubolta á svæðinu. Körfuboltaskóli Norðurlands er þó hvergi nærri farinn í sumarfrí því næst á dagskrá eru námskeið á Skagaströnd, Hvammstanga og Hólmavík,“ segir Helgi

Þetta mun vera fyrsti veturinn í langan tíma sem reglulegar körfuboltaæfingar eru stundaðar heilan vetur fyrir krakka á Blönduósi og var vetrinum svo lokað með boði á Sauðárkróki þar sem krakkarnir hittu fyrir þjálfara og leikmenn beggja meistaraflokksliða Tindastóls. Kíktu þau einnig á útivöllinn og segir Helgi krakkana áhugasama um að fá sambærilegan völl á Blönduós.

„Í vetur æfði að jafnaði 22-24 krakkar á aldrinum 8-16 ára en hópurinn taldi 30-35 þegar fyrirtæki á Blönduósi, mjög rausnarlega, niðurgreiddu æfingarnar fyrir áramót.

Í vor var körfuknattleiksdeild Hvatar stofnuð í ljósi mikils áhuga og góðrar aðstöðu til iðkunar,“ segir Helgi að lokum en myndir frá deginum má finna á Facebook-síðu Körfubaoltaskólans HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir