Kornskurður í Austur Húnavatnssýslu
Nú í vikunni eru bændur í Austur Húnavatnssýslu að ljúka við að þreskja korn af ökrum sínum. Uppskeran er einstaklega góð að sögn Kristjáns Sigfússonar bónda á Húnsstöðum eða um fimm tonn á hektarann.
Kristján segir að allsstaðar þar sem sáð var, hafi uppskeran verið mikil jafnvel þar sem lélegur jarðvegur er fyrir hendi. Sjálfur sáði hann í um þrjá hektara og notar kornið sem fóðurbæti fyrir geldneyti sem hann elur upp.
