Kosning um Mann ársins 2014 á Norðurlandi vestra

Eins og undanfarin ár geta íbúar á Norðurland vestra kosið mann ársins, úr hópi þeirra sem tilnefndir voru af lesendum Feykis og Feykis.is. Í þetta skiptið fengu sjö aðilar tilnefningu til titilsins og sumir reyndar fleiri en eina og fleiri en tvær. Þeir sjö sem hér eru nefndir verða í kjöri sem Maður ársins á Norðurlandi vestra 2014.

Hægt verður að greiða atkvæði á Feyki.is, þá aðeins einu sinni á sólarhring úr hverri IP tölu. Þeir sem ætla að greiða atkvæði á þann hátt skulu þó athuga að fleiri en ein tölva á heimili eða vinnustað geta verið tengdar sömu IP tölu. Einnig er hægt að senda atkvæði bréfleiðis á Feykir, Borgarflöt 1, 550 Sauðárkróki. Kosningu lýkur á hádegi mánudaginn 6. janúar og úrslit verða kynnt í fyrsta blaði ársins 2015, þann 8. janúar.

Tilnefndir voru:

Eydís Ósk Indriðadóttir, Hvammstanga

Eydis OskEydís Ósk, sem er frá Grafarkoti í Húnaþingi vestra er bóndi og starfsmaður við Grunnskóla Húnaþings vestra. „Hún er svo frábær ung kona sem má ekkert aumt sjá og aðstoðar og heimsækir unga sem aldna, gerir ekki mannamun. Ég held bara að það elski hana allir 0-99 ára,“ segir m.a. í tilnefningu sem Eydís fékk.

 

Ingvar Óli Sigurðsson, Hvammstanga

Ingvar ÓliIngvar Óli er 12 ára gamall og brást hárrétt við þegar móðir hans fékk blóðtappa í júlí í sumar og hné niður heima hjá sér, en þau voru ein heima þegar atvikið átti sér stað. Ingvar Óli er sonur Hrefnu Samúelsdóttur og Sigurðar Björns Gunnlaugssonar á Hvammstanga.

 

Jóhanna Pálmadóttir, Akri í Húnavatnshreppi

Jóhanna Erla Pálmadóttir hefur verið ráðin til starfa hjá Þekkingarsetrinu á Blönduósi.

Jóhanna er forstöðumaður Textílsseturs Íslands á Blönduósi. Hún er hugmyndasmiðurinn á bak við Vatnsdælu á refli sem vakið hefur verðskuldaða athygli og hefur beint athygli ferðamanna manna að svæðinu í gegnum starfs sitt, nú síðast með velheppnaðri ráðstefnu um stuttrófukyn sauðfjár. Hún hefur einnig verið virk í félagsmálum í heimabyggð, m.a. setið í hreppsnefnd, verið varaformaður Landssambands sauðfjárbænda og varaþingmaður Norðvesturkjördæmis.

Ómar Bragi Stefánsson, Sauðárkróki

Ómar Bragi Stefánsson formaður Knattspyrnudeildar Tindastóls. Ljósm./BÞ

Ómar Bragi hefur um langt skeið verið virkur í ýmis konar félagsmálum heima í héraði, m.a. setið í stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls í 40 ár. Þá hefur hann verið framkvæmdastjóri Unglingalandsmóta UMFÍ, nú síðast mótsins á Sauðárkróki í sumar og þótti heppnast afar vel. Þá er Ómar Bragi einn aðalhugmyndasmiðurinn á bak við vel heppnað jólahlaðborð Rótarýmanna þar sem íbúum er hefur verið boðið frítt á jólahlaðborð tvö ár.

Sigurður Birgir Karlsson, Hvammstanga

Biggi KarlsSigurður Birgir, eða Biggi Karls eins og kunnugir nefna hann, er öryrki eftir umferðarslys sem hann lenti í 2003. Þá margbrotnaði hann og var vart hugað líf. Um áratug síðar greindist hann með krabbamein og hefur nú unnið bug á því. „Hann er alvöru hvunndagshetja, alltaf jákvæður og hress þrátt fyrir allt og allt. Alltaf boðinn og búinn að aðstoða alla sem á þurfa að halda án þess að ætlast til neins í staðinn,“ segir m.a. í tilnefningu sem Biggi fékk.


Skarphéðinn Einarsson, Blönduósi

Skarphedinn EinarssonSkarphéðinn er skólastjóri Tónlistarskóla Austur-Húnvetninga. Hann hefur kennt við skólann í áratugi og veitt honum forstöðu um langt skeið. Hann var einnig einn af forsprökkum lúðrasveitar á staðnum á sínum tíma. Að sögn kunnugra er Skarphéðinn ómissandi í menningarlífinu á staðnum og er alltaf boðinn og búinn ef vantar undirleik, tónlistaratriði eða aðstoð við menningarviðburði.

 

Ævar Jóhannsson, Hofsósi

Aevar JohannssonÆvar sem er sundlaugarvörður á Hofsósi kom stúlkubarni til bjargar í lauginni. Um var að ræða 5-6 ára stúlku sem hafði laumast burtu frá foreldrum sínum og veitti Ævar því athygli að hún var í erfiðleikum með að halda sér á yfirborðinu og stakk sér til sunds.

 

 

Hér fer fram kosning um Mann ársins 2014 á Norðurlandi vestra.

Fleiri fréttir