Kristinn Gísli sigraði í nemakeppni í matreiðslu

Kristinn Gísli Jónsson og Ásdís Björgvinsdóttir. Mynd: Ólafur Jónsson
Kristinn Gísli Jónsson og Ásdís Björgvinsdóttir. Mynd: Ólafur Jónsson

Í nemakeppni í matreiðslu og framreiðslu sem fram fór í Hótel- og matvælaskólanum þann 23. nóvember sl. stóð Skagfirðingurinn Kristinn Gísli Jónsson uppi sem sigurvegari í matreiðslu ásamt Ásdísi Björgvinsdóttur.  Þau munu, ásamt sigurvegurum framreiðslunema, keppa í Norrænu nemakeppninni sem fer fram í Helsinki dagana 21. og 22. apríl 2017.

Á vefsíðunni Veitingageirinn.is segir að forkeppni hafi verið haldin viku fyrr eða miðvikudaginn 16. nóvember sl. vegna fjölda þátttakenda. Í forkeppninni kepptu 21 um að komast í úrslitakeppnina sjálfa en fimm stigahæstu keppendurnir komust áfram í úrslitakeppnina.

Keppendur í matreiðslu áttu að matreiða tvo rétti; fiskrétt og eftirrétt fyrir tvo einstaklinga.  Þeir áttu að hanna réttina og öll aðferðafræði og framsetning átti að byggja á klassískum aðferðum og næringarfræðilegum áherslum.

Í framreiðslu fólst keppni nemanna í því að dekka upp fjögurra rétta kvöldverðaborð með vínum fyrir tvo gesti; í blöndun drykkja; í servéttubrotum og ýmsum fagbóklegum þáttum.

Í framreiðslu voru hæstar þær Alma Karen Sverrisdóttir nemi á Icelandair Hótel Natura og Gréta Sóley Arngrímsdóttir nemi á Icelandair Hótel Natura. Meistari þeirra er Sigrún Þormóðsdóttir.

Kristinn Gísli er sonur Öldu Kristinsdóttur og Jóns Daníels Jónssonar á Sauðárkróki.

Sigurvegararnir munu svo keppa fyrir hönd Íslands í Norrænu nemakeppninni sem fer fram í Helsinki dagana 21. og 22. apríl 2017.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir