Króksamót Tindastóls í minnibolta
Körfuknattleiksdeild Tindastóls heldur nú í fyrsta skiptið sitt eigið minniboltamót, sem ætlað er krökkum frá 6 – 11 ára. Mótið verður næstkomandi laugardag kl. 11 – 16 í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Mótið er kennt við lukkudýr körfuknattleiksdeildarinnar Króksa og heitir því „Króksamót Tindastóls í minnibolta“.
Nú þegar hafa lið frá Borgarnesi, Hvammstanga, Skagaströnd og Akureyri boðað komu sína auk iðkenda frá Tindastóli allt frá 1. upp í 6. bekk. Engin stig eru talin á mótinu, áherslan lögð á skemmtun og fjör og að allir fái að vera með. Til skemmtunar verður m.a. troðslusýning meistaraflokksleikmanna.
Mótsgjaldið er kr. 1.500 og fá allir sérstaka mótsboli sem FISK Seafood gefur þátttakendum, auk þess sem allir snæða sameiginlega máltíð í lok móts, sem Jón Dan og hans fólk í Skagfirskum mat töfrar fram.
Áætlað er að um 150 krakkar taki þátt í þessu fyrsta móti, en áherslan var lögð á að kynna það úti á landsbyggðinni.
Nánari upplýsingar verða settar inn á tindastoll.is þegar líður á vikuna.
Mótstjóri er Rúnar Birgir Gíslason.