Stiklað á stóru um ferðalag Kvennakórsins Sóldísar til Ítalíu

Það var sannarlega glaumur og gleði á tónleikum Kvennakórsins Sóldísar í Corpus Domini kirkjunni í Bolzano, þeim fyrstu utan landsteinanna. Reyndar var gleði allsráðandi alla ferðina og verður lengi í minnum haft. Myndir: PF.
Það var sannarlega glaumur og gleði á tónleikum Kvennakórsins Sóldísar í Corpus Domini kirkjunni í Bolzano, þeim fyrstu utan landsteinanna. Reyndar var gleði allsráðandi alla ferðina og verður lengi í minnum haft. Myndir: PF.

Snemma árs 2020 segir í frétt í Feyki að Kvennakórinn Sóldís ætlaði að fagna tíu ára starfsafmæli sínu en fyrstu tónleikar kórsins voru haldnir í menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð á konudaginn, sem þá bar upp á 20. febrúar. Kórinn hóf starfsemi um haustið áður og segir í annarri frétt í Feyki að hann hafi slegið eftirminnilega í gegn á kvennafrídeginum er hann söng á samkomu sem haldinn var í tilefni dagsins í Miðgarði þann 24. október 2011.

Kórinn var stofnaður af þremur kraftmiklum konum, þeim Drífu Árnadóttur á Uppsölum, Sigurlaugu Maronsdóttur á Sauðárkróki og Írisi Olgu Lúðvíksdóttur í Flatatungu en þær skipuðu stjórn kórsins fyrsta áratuginn. Nú hafa Elín Jónsdóttir á Sauðárkróki og Klara Helgadóttir Syðri-Hofdölum komið inn fyrir Sigurlaugu og Írisi. Stjórnandi kórsins er Helga Rós Indriðadóttir og undirleikari Rögnvaldur Valbergsson.

Á afmælisárinu var ætlunin að gera sér dagamun og var m.a. stefnt á átta daga ferð til Ítalíu þar sem átti að syngja a.m.k. á tveimur stöðum fyrir gesti og gangandi. En líkt og hjá flestum landsmönnum, eða réttara sagt jarðarbúum, brenglaði Covid faraldurinn allar ferðaáætlanir kórsins þangað til núna á dögunum er 62 manna hópur kórkvenna og viðhengja þeirra, sem ýmist voru makar eða aðrir nákomnir, lögðu loks af stað í reisuna sem hafði tekið minniháttar breytingum frá því sem upphaflega var stefnt á.

Í útrás á afmælisári

Þær frænkur, Stella Hrönn og Jóna Fanney,
stýrðu hópnum af miklum myndugleik.

Ferðalýsingin var á þá leið að flogið yrði frá Keflavík og lent í München og ekið þaðan í uppsveitir Týrols þar sem gist yrði í bænum Bolzano í fjórar nætur. Þar voru bókaðir tónleikar og skipulagðar stuttar skoðunarferðir áður en förinni væri haldið til bæjarins Desenzano við Gardavatnið en þar var áætlað að gista aðrar þrjár nætur. Ekki var búið að finna tónleikastað í þeim bæ eða í nágrenni hans þar sem svo virtist sem allt væri fullbókað eða frátekið vegna atburða sem höfðu beðið vegna samkomutakmarkana síðustu tveggja ára. En úr því rættist þó með smá tilfæringum sem lesa má um hér á eftir.

Það er óhætt að segja að fyrsti ferðadagur hafi verið drjúgur og kannski helst minnt á síðasta erindi Á Sprengisandi þegar ferðamaðurinn var til í að gefa vænsta klárinn sinn svo hann næði loks á áfangastað eftir mikið ferðalag en kannski með örlítið breyttu sniði: Vænsta makann vildi ég gefa til, að vera komin ofan í …. yfir Brennerskarð! Æi, þetta virkar ekki!

Þau sem lengst fóru þurftu að koma sér á Krókinn þaðan sem ferðin hófst formlega kl. hálf tvö eftir miðnætti mánudaginn 6. júní. Þaðan lá leiðin með langferðabifreið fram sveitir og við hópinn bættist fjöldi í Varmahlíð þaðan sem haldið var á Blönduós en þar stækkaði hópurinn enn. Þá var eftir að sækja nokkra sem biðu í borginni áður en haldið var út á Keflavíkurflugvöll. Í loftið fór þotan svo um klukkan ellefu og framundan tæplega fjögurra tíma flug til Þýskalands.

Tveimur tímum munar á klukkunni svo við lentum um hálf fimm að staðartíma. Á flugvellinum beið okkar fararstjórinn, Jóna Fanney Svavarsdóttir hjá ferðaskrifstofunni Eldhúsferðum en hún er frá Litladal í Svínadal í Austur Húnavatnssýslu. Stjórnaði hún ferðinni með miklum myndarleik allt til enda. Í Bolzano bættist henni liðsauki þar sem frænka hennar, Stella Hrönn Jóhannsdóttir frá Keflavík í Hegranesi, var hópnum innan handar allt til loka ferðar.

Upp í rútu fóru ferðalangar og ferðinni heitið suður á bóginn, ekið sem leið liggur þvert yfir Austurríki, með góðu matarstoppi á Landzeit Angath þar sem þjónarnir bókstaflega hlupu til og frá eldhúsinu svo við gætum fengið matinn okkar sem fyrst, og yfir Brennerskarð, sem liggur um Alpafjöll á landamærum Ítalíu og Austurríkis og er ein af aðalleiðunum yfir Austur-Alpa og er lægst allra fjallaskarða á svæðinu. Til Bolzano náðum við áður en nýr dagur hófst en þá höfðu flestir verið á ferðinni í nærri sólarhring og allir hvíldinni fegnir þegar á hótelið kom.

Bolzano er höfuðborg Suður-Týról, sem er sjálfstjórnarhérað á norður-Ítalíu með sérstökum lögum sem m.a. varðveita réttindi þýskumælandi minnihlutans á Ítalíu. Í borginni búa rúmlega hundrað þúsund manns en í héraðinu öllu um 512 þúsund. Segja má að borgin sé suðupottur ólíkra menningarhluta Norður- og Suður-Evrópu enda þrjú opinber tungumál viðurkennd á svæðinu, ítalska, þýska og ladin. Tíról er mikið landbúnaðarhérað þar sem mest ber á epla- og vínrækt.

Fyrstu tónleikarnir á erlendri grundu

Á öðrum degi ferðarinnar var boðið upp á fjallaferð fyrir þá sem vildu, hinir nýttu daginn til annarra hluta í bænum. Farið var með kláfi upp bratta fjallshlíðina sem endaði ferð sína við brautarstöð en sest var inn í litla járnbrautalest sem flutti okkur að áfangastað nærri Plattnerhofsafninu, sem er um 600 ára gamall sveitabær sem gerður var upp og hýsir nú eins konar býflugnasafn og óhætt að að segja að veiti góða innsýn í heimilishald gamla bændasamfélagsins á svæðinu. Varð mér hugsað til þeirra menningarverðmæta sem hurfu þegar íbúðar- og peningahúsin á Skarðsá í Sæmundarhlíð voru jöfnuð við jörðu á sínum tíma.

Á safninu fengu gestir góða innsýn í hegðun býflugna og hvernig þær eru nýttar til matvælaframleiðslu og fengu allir að smakka á afurðum, ótal bragðtegunda hunangs og að sjálfsögðu hunangssnafs í kveðjuskyni. Einnig mátti sjá, og kaupa, sápur, kerti og fleira unnið úr hunangsframleiðslunni.

Úr kláfnum sást vel yfir epla- og vínakra bænda sem stunda sína ræktun í bröttum hlíðum fjallanna og eins mátti sjá nautgripi og önnur húsdýr.

Það var á þriðja degi sem hápunkti ferðalagsins var náð þegar tónleikar Sóldísar fóru fram í Corpus Domini kirkjunni í Bolzano. Mikill spenningur var í loftinu bæði hjá söngkonum og aðdáendum sem fylgdu þeim frá Íslandi. Þarna var stórviðburður á ferðinni þar sem um fyrstu tónleika kórsins á erlendri grundu var að ræða. Leggið dagsetninguna á minnið kæru lesendur, 8. júní 2022.

Í Corpus Domini kirkjunni í Bolzano

Kannski er ekki hægt að segja að kirkjan hafi verið þéttsetin, og þó, og munaði að sjálfsögðu um okkur Íslendingana. Töluverður reytingur var af heimafólki, sem vissi ekki við hverju var að búast af þessum ókunna kvennakór norðan úr höfum en auðséð var að hrifningin stigmagnaðist eftir því sem leið á enda tónleikarnir sérlega vel heppnaðir þrátt fyrir ýmis atvik í aðdraganda ferðarinnar.

Má þar helst nefna að stjórnandi kórsins, Helga Rós Indriðadóttir, hafði legið í Covid-19 einangrun skömmu fyrir ferðina án þess að að hafa náð að æfa kórinn og ekki mátti miklu muna að hún missti af sjálfri ferðinni. Sem betur fer er kórinn vel mannaður og hljóp Elín Jónsdóttir í skarðið svo kórinn mætti ekki alveg óæfður til Ítalíu.

En eins og áður sagði tókst ansi hreint vel til við altari kirkjunnar þar sem kórinn söng eins vel og fallega og ávallt áður og stjórnandinn geislaði sem aldrei fyrr og hreif alla með sér er hún dansaði um kirkjugólfið í hinu vinsæla lagi La det swinga, með Bobbysocks. Ítölsku áhorfendurnir sátu sem dolfallnir og ekki minnkaði hrifningin þegar kórinn hóf að syngja á ítölsku. Þá kom kynnir kórsins, Helga Þuríður Jónasdóttir, heldur betur á óvart er hún sagði frá lögum og ljóðum sem flutt voru, á reiprennandi og lýtalausri ítölsku. Það voru ekki eingöngu ítölsku gestirnir sem hrifust af söng kórsins þar sem flestir Íslendinganna voru einnig með tárin í augunum af hrifningu. Svo vel skilaði flutningurinn sér að Sigurjón Gestsson orti rándýra hringhendu af því tilefni og flutti í hófi sem kór kirkjunnar og safnaðarstjórn bauð til, öllum hópnum til heiðurs, eftir konsert.

Þær í blóma saman syngja
söngsins óma strengirnir.
Fagrir hljómar alla yngja
enda ljóma drengirnir.

Og það verður seint sagt um Ítali að þeir láti gesti sína fara svanga heim enda var margréttað í veislunni af mat og drykkjum og það var saddur hópur, bæði á sál og líkama, sem hélt heim á hótel að teiti loknu.

Kalt á toppnum

Á fjórða degi var boðið upp á dagsferð um Dólómítafjöllin, sem eru í næsta nágrenni Bolzano, fjallgarður sem er hluti af suður-Ölpunum. Hæsti punktur þeirra er 3.343 metrar og segir á Wikipedia að árið 2009 hafi fjöllin verið sett á heimsminjaskrá UNESCO en þau eru þekkt fyrir hvassa tinda sína.

Flestir í hópnum fóru þessa skemmtilegu ferð um fjöllin háu en farið var með rútu frá Bolzano. Fyrsta stopp var við Karersee-vatn þar sem Latemar tindar speglast í vatninu öðru megin og Rósagarðurinn hinu megin, ef veðurskilyrði leyfa, sem ekki var hjá okkur í þessari ferð. Þungbúið var og rigningar að vænta hvenær sem var. Vatnið atarna var varla meira en tjörn, grænleitt að sjá af þörungum, en gefur frá sér skemmtilega birtu og glit í sólskini. Þetta er vinsæll viðkomustaður ferðamanna og skemmtilegt dæmi um hvernig er hægt að búa til áfangastað úr litlu í rauninni, aðgengilegri tjörn með göngustíg í kring og forvitnilega þjóðsögu um tilurð litbrigða tjarnarinnar. En engu að síður fínn áningarstaður.

Rósagarðurinn er ægifagur fjallgarður
í Dólómítafjöllum í Suður-Týról.

Rósagarðurinn er ein fegursta fjallaþyrping Alpanna en einnig þekkja Íslendingar víðáttumikil fiskimið undan suðausturströnd Íslands með sama nafni. Nafnið kemur frá þýskum sjómönnum sem nefndu svæðið Rosengarten og taldi fararstjórinn það tilkomið vegna þeirra skilyrða sem eru á Íslands-Færeyjahryggnum sem sjómenn hafa þurft að eiga við í gegnum tíðina.

Áfram var haldið um vegi fjallanna sem liðuðust í óteljandi sveigjum og beygjum upp hlíðarnar og margt fallegt var að sjá. Helst kom það bændum ferðarinnar á óvart hve lítilfjörleg túnin voru þar sem ræktuð lönd virtust helst innihalda úthagagróður. Miðað við vélakost bændanna hefði maður haldið að auðvelt væri að bylta túnum og sá almennilegri grasblöndu. Jæja, hvað um það, næsti áfangi var Pordoijochskarðið þar sem þeir sem óskuðu gátu tekið kláf upp á Sass Pordoi-fjallið sem er í 2.950 m hæð yfir sjávarmáli.

Í góðu veðri er útsýnið þaðan stórfenglegt yfir alla Dólómítana. En heppnin var ekki alveg með okkur því þar var kalt og á okkur snjóaði. Útsýnið var ekkert, sem kom mér ágætlega lofthræddum manninum, en þá hefur maður ástæðu til að heimsækja staðinn aftur. Á toppnum var veitingahús og ansi gaman að snæða þar og fá sér bjór í þunna loftinu.

Áfram var haldið og næsti viðkomustaður Ortisei, fæðingarbær Sigurðar Demetz hins kunna söngvara og söngkennara. Bærinn er þekktur fyrir útskurðarverkstæði sín og er allur listlega skreyttur útskornum viðarskúlptúrum. Fjölskylda Sigurðar er ein af þeim sem rekur þar samnefnt verkstæði og listgallerý en því miður var lokað þar þegar við áttum leið um. Frá Ortisei lá leiðin aftur heim á hótel í Bolzano og morgundagurinn beið okkar með enn einni rútuferðinni.

Óvæntir tónleikar á ráðhústorgi

Nú var kominn föstudagurinn 10. júní og ferðinni heitið lengra suður á bóginn eða að Gardavatninu með viðkomu í Madonna della Corona sem er undraverð kirkja, byggð hátt í lóðréttum klettavegg Baldofjalls. Að henni er aðeins ein fær leið fyrir aðra en fuglinn fljúgandi, ofan frá eftir bröttum stíg. Stórkostleg bygging sem allir ættu að skoða sem á svæðinu dvelja.

Eftir að hafa svalað sér á köldum drykk eftir uppgönguna til baka var svo haldið til bæjarins Desenzano del Garda og á hótelið Oliveto sem stendur nærri vatninu. Það hótel er mun íburðarmeira en það sem við áður gistum, með mínibar, svölum og sundlaug og áttum við góðar stundir þar.

Sungið á ráðhústorginu á Valeggio.
30 stiga hiti og glampandi sól.

Upp rann sjötti ferðadagurinn og góðar fréttir höfðu borist daginn áður þar sem leyfi fékkst fyrir kórinn að syngja á ráðhústorginu í nálægum bæ, Valeggio. Torgið er við göngugötu í miðbænum og gátu þeir sem þar fóru um hlýtt á norðlæga tóna hins glæsilega kvennakórs og var auðséð að söngurinn heillaði fleiri en hinn áðurnefnda aðdáendahóp sem fylgdi kórnum hvert fótmál.

Hitastigið hafði heldur aukist frá því sem var í Bolzano og stóð mælirinn ýmist öðru hvoru megin við 30 gráðurnar svo reynt var að standa í skugganum svo söngdífurnar skrælnuðu ekki í sólinni. Að söng loknum var haldið á ný til Desenzano þar sem fólk kíkti í bæinn og naut matar á hinum fjölbreyttu matsölustöðum bæjarins.

Heyr himnasmiður sunginn í
beinakapellunni í San Martino della Battaglia.

Daginn eftir gat fólk spókað sig í sólinni eins og hver vildi fram eftir degi en um kvöldið var fyrirhugaður sameiginlegur kvöldverður í San Martino della Battaglia sem frægt er fyrir eina mestu orrustu í Evrópu fyrir tíma heimsstyrjaldanna, en hún fór fram 24. júní 1859. Átökin sem þarna fóru fram höfðu víðtækar afleiðingar m.a. þær að Ítalía varð til sem eitt ríki 1861 og það sem ekki var verra að Rauði krossinn var stofnaður en það kom að sjálfsögðu ekki til af góðu.

Mannfallið var gríðarlegt og grimmdin allsráðandi líkt og beinakapellan í nágrenninu ber vitni um. En á veitingastaðnum, sem þarna er á svæðinu, átti hópurinn dásamlega kvöldstund þar sem boðið var upp á glæsilega margrétta veislu undir berum himni í fögru umhverfi. Þó einn dagur væri eftir af túrnum, sjálf heimferðin, var þarna settur lokapunkturinn við vel heppnaða utanlandsferð Kvennakórsins Sóldísar, þá fyrstu af vonandi mörgum.

Áður birst í 24. tbl. Feykis 2022

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir