Kvennakórinn Sóldís fagnar tíu ára starfi

Kvennakórinn Sóldís. Mynd: Gunnhildur Gísladóttir.
Kvennakórinn Sóldís. Mynd: Gunnhildur Gísladóttir.

Kvennakórinn Sóldís fagnar því á þessu ári að tíu ár eru liðin frá stofnun hans og er þetta starfsár því það tíunda í röðinni. Kórinn var stofnaður af þremur kraftmiklum konum, þeim Drífu Árnadóttur á Uppsölum, Sigurlaugu Maronsdóttur á Sauðárkróki og Írisi Olgu Lúðvíksdóttur í Flatatungu en þær hafa skipað stjórn kórsins frá upphafi. Stjórnandi kórsins er er Helga Rós Indriðadóttir.

Einn af föstum liðum í starfi kórsins eru konudagstónleikar í Miðgarði. Þeir verða haldnir á morgun, konudag, klukkan 15:00. Söngskráin er fjölbreytt aðvanda og auk einsöngvara kórsins, Írisar Olgu og Ólafar Ólafsdóttur, ætlar kórstjórinn, Helga Rós Indriðadóttir, að syngja einsöng að þessu sinni og er það sannarlega tilhlökkunarefni en eins og margir vita á Helga að baki glæstan feril sem óperusöngkona við óperuna í Stuttgart í Þýskalandi. Meðal laga sem kórinn flytur er nýtt lag eftir Eddu Björk Jónsdóttur sem ættuð er úr Fljótum. Lagið er eitt af verkefnum Eddu úr Listaháskólanum síðastliðinn vetur og er samið við ljóð Ólínu Andrésdóttur, Til Kvenréttindafélagsins. Að sjálfsögðu verður svo hið rómaða kaffihlaðborð kórsins, sem boðið er upp á að tónleikum loknum, á sínum stað.

Fljótlega eftir konudagstónleikana ætlar kórinn svo að leggja land undir fót og halda suður yfir heiðar. Þar verður sungið í Langholtskirkju laugardaginn 7. mars klukkan 16:00 og í Vinaminni á Akranesi daginn eftir, sunnudaginn 8. mars klukkan 15:00. Þegar nær líður vori er ætlunin að syngja á Skagaströnd auk hinna hefðbundnu tónleika á Sæluviku og á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki .

Í útrás á afmælisári

Á afmælisári er við hæfi að gera sér dagamun og það ætlar kórinn svo sannarlega að gera. Í byrjun júní er förinni heitið í átta daga ferð til Ítalíu þar sem dvalið verður við Gardavatnið og sungið á tveimur stöðum. Þaðan verður haldið til Þýskalands, til Stuttgart, þar sem Helga Rós er öllum hnútum kunnug enda söng hún, eins og áður segir, um árabil við óperuna þar.

 

Í nýjasta tölublaði Feykis er að finna viðtal við stjórnanda og stjórnarkonur Sóldísar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir