Lagningu lokið á rafstreng og ljósleiðara um Kjöl

Hveravellir á Kili. Mynd: hveravellir.is
Hveravellir á Kili. Mynd: hveravellir.is

Lokið er lagningu 67 kílómetra rafstrengs og ljósleiðara um Kjöl en hann er einn af fjórum stofnvegum hálendis Íslands. Hingað til hafa ferðaþjónustuaðilar reitt sig á díselvélar en með tilkomu nýja strengsins verða þær nú óþarfar. Í frétt á vef Stjórnarráðsins segir að þetta gerbreyti rekstrargrundvelli fyrir ferðaþjónustu á Kili og auki fjarskiptaöryggi til mikilla muna á þessari fjölförnu hálendisleið sem í gegnum aldirnar hefur verið annáluð fyrir draugagang.

Á dögunum var haldið upp á verklokin með kaffisamsæti þeirra sem komu að verkefninu hjá hjónunum Vilborgu Guðmundsdóttur og Lofti Jónassyni í Myrkholti í Bláskógabyggð. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði gesti og óskaði þar öllum til hamingju: „Orkuskipti á Kili eru mikilvæg aðgerð fyrir framtíðarsýn um umhverfisvæna ferðaþjónustu sem byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum,“ sagði forsætisráðherra við þetta tækifæri en Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpaði einnig samkomuna.

Í verkefninu taka einnig þátt sveitarfélögin Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur, Húnavatnshreppur auk Neyðarlínunnar, Fjarskiptasjóðs, Rarik og ferðaþjónustufyrirtækja í Árbúðum, Kerlingafjöllum og Hveravöllum. Ríkið lagði 100 milljónir til verkefnisins en lagning strengsins kostaði um 285 milljónir. Með þessu heyra olíuflutningar til hálendismiðstöðva á svæðinu sögunni til.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir