Lambafille með Bernaise heillaði dómarana - Kokkakeppni Árskóla

Sigurvegarar Kokkakeppni Árskóla 2018. Katrín Evu Óladóttir Marín Lind Ágústsdóttir, og Evu Rún Dagsdóttir. Mynd:PF
Sigurvegarar Kokkakeppni Árskóla 2018. Katrín Evu Óladóttir Marín Lind Ágústsdóttir, og Evu Rún Dagsdóttir. Mynd:PF

Hin árlega kokkakeppni Árskóla á Sauðárkróki fór fram sl. fimmtudag í heimilisfræðistofu skólans en alls tóku fimm lið þátt úr 9. og 10. bekk. Þegar Feykir mætti á staðinn voru liðin á lokametrunum með rétti sína sem allir litu girnilega út og gerðu sannarlega tilkall til verðlauna.

Að sögn Ástu Búadóttur, heimilisfræðikennara, voru allir réttirnir ljúffengir og erfitt val fyrir dómarana að skera úr um sigurvegara en dómararnir voru að þessu sinni Sigurlaug Viðarsdóttir og Ragnheiður Skaptadóttir hjá Grettistaki ehf., og  Stína, Kristín Jónsdóttir, matmóði Árskóla, sem  gáfu sér tíma til að koma og dæma.

Þannig fór að lið Marínar Lindar Ágústsdóttur, Katrínar Evu Óladóttur og Evu Rúnar Dagsdóttur urðu í fyrsta sæti en þær elduðu Lambafille borið fram með Bernaise sósu, eplasultu og sætri kartöflurösti.

Í öðru sæti urðu þær Bjarney Lind Hjartardóttir, Birta Líf Hauksdóttir og Birgitta Björt Pétursdóttir með Lambakórónu, bernaise sósu og fylltri kartöflu.  Í þriðja sæti voru þær Eyvör Pálsdóttir, Margrét Kristjánsdóttir og Sólrún Petra Halldórsdóttir með beikonvafða kjúklingabringu með piparsósu og sætum kartöflum.

Vinningarnir komu frá: KS, Hard Wok Cafe , KK restaurant, Sauðárkróksbakaríi og Bláfelli. „Við þökkum dómurum og þeim sem gáfu vinningana innilega fyrir að gera keppni sem þessa mögulega, skólastarfinu til framdráttar,“ segir Ásta í lokin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir