Lanarar vildu engar breytingar

Helgi Grétar Marteinsson (58), lanari, kom að máli við Dreifarann nú í upphafi verkfalls framhaldsskólakennara og var bæði sár og svekktur. „Ég var með fullmótaðar tillögur varðandi bætta tilhögun í laninu, en ég var formaður í Hinu norðlenska lanmenningarsamfélagi þangað til í morgun. Þá sagði ég upp.“

Segðu okkur nánar frá þessu Helgi. „Nú, þú þekkir þetta samfélag. Við komum vanalega saman þarna í skólanum uppúr kvöldmat og spilum tölvuleiki við fólk um allan heim. Helvíti skemmtilegt hobbí en þetta vill nú ganga þannig að menn eru að fylla sig af gosi og pizzum langt fram á nótt og eru síðan að skríða hálfpartinn heim, rauðeygðir og útúrtaugaðir, þegar venjulegt fólk er að fara til vinnu á morgnana.“

Ert þú ekki full gamall til að taka þátt í lani? „Nei, alls ekki, þetta er í raun mjög uppbyggjandi sport sem fólk á öllum aldri ætti að stunda. Það er til dæmis mikið minna um meiðsli í þessu sporti en í fótbolta og körfu. Þetta er líka mjög góð andleg þjálfun – ég meina, það tognar enginn á heila, hahaha“

Ókei, en hvaða tillögur varstu með um bætta lanmenningu? „Ég vil nú byrja á því að segja að ég var kjörinn formaður félagsins, Hinu norðlenska lanmenningarsamfélagi, nú í vor og þá vildi....“

Bíddu, bíddu, hvað þarf formaður félagsins eiginlega að gera? „Eh… það er nú margt og merkilegt skal ég segja þér. Ég þarf að díla vegna húsnæðismála, auglýsa hvenær við eigum að hittast, mót utan héraðs og ekki síst höfum við lengi barist fyrir afslætti á helstu pizzastöðum hér norðanlands.“

Einmitt, en tillögurnar sem þú varst með, þær hafa ekki fallið í kramið? „Nei, ég lagði til núna um helgina að í stað þess að mæta í lanið í verkfallinu öll kvöld, en ég reikna með að verkfallið verði langt bæ ðe vei, semsagt já, að við mættum snemma að morgni í stað kvöldmætingarinnar... já og svo hafði ég pantað inn talsvert magn af grænmetissamlokum og heilsusafa í nafni félagsins. Það varð bara allt vitlaust!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir